Handbolti

Bláir í rauðu hafi: „Eins og við værum boð­flennur í einkapartýi“

Aron Guðmundsson skrifar
Bræðurnir Hjörtur Ívan Sigbjörnsson og Birkir Fannar Einar Einarsson voru áberandi í bláum landsliðstreyjum Íslands innan um haf rauðklæddra danskra stuðningsmanna í Boxen höllinni í Herning í gær þar sem að fram fór undanúrslitaleikur Íslands og Danmerkur á EM í handbolta.
Bræðurnir Hjörtur Ívan Sigbjörnsson og Birkir Fannar Einar Einarsson voru áberandi í bláum landsliðstreyjum Íslands innan um haf rauðklæddra danskra stuðningsmanna í Boxen höllinni í Herning í gær þar sem að fram fór undanúrslitaleikur Íslands og Danmerkur á EM í handbolta. Vísir/Vilhelm Gunnarsson

Bræður frá Ís­landi vöktu ekki mikla kátínu meðal danskra stuðnings­manna á leik Ís­lands og Dan­merkur í undanúr­slitum EM í hand­bolta í Herning í gær. Í miðri stúku voru þeir, tveir Ís­lendingar, innan um þúsundir danskra stuðnings­manna. „Við Ís­lendingar eigum alveg sama til­verurétt þarna og aðrir,“ segir annar bróðirinn í sam­tali við Vísi.

Það var alveg verið að hreyta ýmsu í okkur en það var allt á dönsku. Ég hefði neitað að tala dönsku á sunnudögum fyrir hundrað árum, við erum ekkert að fara byrja tala dönsku núna

Birkir Fannar Einar Einarsson

Það var alveg verið að hreyta ýmsu í okkur en það var allt á dönsku. Ég hefði neitað að tala dönsku á sunnudögum fyrir hundrað árum, við erum ekkert að fara byrja tala dönsku núna

Það var Vilhelm Gunnarsson, ljósmyndari Vísis, sem náði þessari frábæru ljósmynd sem er einhvern veginn svo lýsandi fyrir baráttuna sem Strákarnir okkar háðu í undanúrslitum EM gegn besta landsliði í heimi, ríkjandi heims- og ólympíumeisturum Danmerkur á þeirra eigin heimavelli í Boxen í Herning. 

„Mér finnst þetta líka skemmtileg birtingarmynd svona með sögu Danmerkur og Íslands til hliðsjónar,“ segir Birkir Fannar Einar Einarsson í samtali við Vísi. Við sjáum hann á ljósmynd Vilhelms með bróður sínum Hirti Ívan Sigbjörnssyni . „Það var bullandi einokunarverslun þarna í gangi og eins og í tímaritinu Verðandi sem kom út í Kaupmannahöfn í kringum 1882, þar sem að fyrsta línan var „Ég elska þig stormur“ og þaðan kemur sjálfstæðisbaráttann. Þetta var dálítið þannig. Við bræðurnir vorum þarna fastir inn í einhverjum stormi en þetta var rosalegt. 

Birkir Fannar Einar Einarsson er hér vinstra megin á myndinni og honum við hlið er bróðir hans Hjörtur Ívan Sigbjörnsson en saman studdu þeir við bakið á íslenska landsliðinu umkringdir Dönum í undanúrslitum EMVísir/Aðsend mynd

Leiknum lauk með þriggja marka tapi 31-28 en hetjuleg barátta íslensku landsliðsmannanna stendur upp úr. 

Ekki beint í uppáhaldi

Bræðurnir höfðu mikla trú á Strákunum okkar og urðu sér út um miða áður en það varð öruggt að íslenska landsliðið myndi komast í undanúrslit mótsins.

„Við höfðum bara mikla trú á strákunum. Við höfðum ekki hugmynd um það hvar eða hvernig miðarnir sem við keyptum væru, náðum bara að redda þeim með miklum herkjum.“

Ferðalagið hjá þeim hófst klukkan fjögur í gærmorgun

„Við komum svo eiginlega bara beint á leikinn eftir einhverjar níu klukkustundir af flug- og lestarferðum. Beint inn í haf af rauðum treyjum, ég hafði bara aldrei séð annað eins. Það var lítil hrifning hjá Dönunum með okkur.“

„Erum vel hásir í dag“

Svo fór að bræðurnir lentu nánast í miðju einnar stúku fyrir aftan annað markið og þar voru þeim umkringdir þúsundum danskra stuðningsmanna. 

„Við gerðum okkur og landsliðinu kannski smá óleik. Það voru alveg læti í okkur í stúkunni en í hvert skipti sem við byrjuðum fór allur þessi veggur af dönskum rauðklæddum stuðningsmönnum í gang. Tilfinningin var eins og við værum boðflennur í einkapartýi en sýnir líka hvað fyrirkomulagið er fáránlegt í kringum miðasöluna á þessa leiki. Við Íslendingar eigum alveg sama tilverurétt þarna og aðrir. Við létum þetta ekkert á okkur fá, erum alveg vel hásir í dag.

Við erum báðir þannig úr garði gerðir að vera ekkert að láta einhverja fimm þúsund Dani hræða okkur. Það kom samt alveg tímapunktur þar sem að þeir þjörmuðu að okkur. En maður bara tvíeflist í því. Það var alveg verið að hreyta ýmsu í okkur en það var allt á dönsku. Ég hefði neitað að tala dönsku á sunnudögum fyrir hundrað árum, við erum ekkert að fara byrja tala dönsku núna.“

Danirnir bauluðu út í eitt

Þetta er ekki fyrsti leikurinn sem bræðurnir sækja með íslenska landsliðinu en það er eitt sérstakt við framkomu danskra stuðningsmanna sem er þeim ekki til framdráttar.

„Þetta er eina liðið sem baular á hin liðin. Þeir eru mjög duglegir að baula á andstæðinga, mér finnst önnur lið ekki gera það. Svo bauluðu þeir líka á myndskeið sem var sýnt fyrir leik þar sem að fyrirliðar liðanna biðja stuðningsmenn um að bera virðingu fyrir liði og stuðningsmönnum mótherjans. Þeir byrjuðu bara um leið að baula á það.“

Bræðurnir eru miklir handboltaáhugamenn og koma úr handboltafjölskyldu. Faðir þeirra, Sigbjörn Þór Óskarsson, átti sinn feril sem leikmaður og var þjálfari ÍBV vel og lengi. 

„Við ólumst báðir upp á meistaraflokksæfingum hjá ÍBV. Þar var Kári Kristján meðal annars sprikklandi sem unglingur. Við erum því miklir stuðningsmenn handbolta og höfum fylgt ÍBV og íslenska landsliðinu alla tíð.“

Vilja hjálpa strákunum að sækja bronsið

Mótinu er ekki lokið hjá Strákunum okkar. Þær mæta Króötum Dags Sigurðssonar í enn eitt skiptið í bronsleik EM á morgun í Boxen höllinni í Herning. Þar vilja bræðurnir frá Íslandi vera í stúkunni en hefur ekki tekist að verða sér út um miða. 

„Við erum í mikilli örvæntingu að reyna verða okkur út um miða á bronsleikinn á morgun. Ég væri alveg til í að endurtaka leikinn ef við fáum miða, jafnvel henda mér í þýsku landsliðstreyjuna og vera á sama stað í stúkunni í úrslitaleiknum seinna um daginn. Vonandi hefnir Alfreð Gísla fyrir leikinn í gær.“ 

Bræðurnir sáu með berum augum frábæra frammistöðu Strákanna okkar sem sýndu hetjulega baráttu. 

„Leikurinn var frábær, strákarnir geggjaðir og þetta lið er bara hrikalega flott. Ef við hefðum unnið þennan leik í gær þá er ég nokkuð viss um að við bræðurnir hefðum endað á spítala en við vorum alveg tilbúnir í að taka sénsinn á því. Við fengum frábæran leik, vantaði bara herslumuninn. Frammistaðan frábær.“ 


Tengdar fréttir

Svaf yfir sig og missti af rútunni

Orri Freyr Þorkelsson kom með seinni skipum á fjölmiðlahitting íslenska landsliðsins í Herning í Danmörku eftir langa nótt. Stór hluti íslenska hópsins fékk að sofa út.

Tekur Gísli of mikið pláss frá Ómari?

Sérfræðingar Besta sætisins eru á því að finna þurfi jafnvægið á milli Gísla Þorgeirs Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar í leik íslenska landsliðsins. Þegar að það náist geti farið að horfa í að vinna till gullverðlauna á stórmóti. 

Pytlick: „Ísland átti meira skilið í kvöld“

Danska stórskyttan Simon Pytlic skoraði fimm mörk fyrir Dani í sigrinum á Íslandi í undanúrslitum EM í kvöld og hann var öflugur á lokasprettinum í leiknum þegar danska liðið landaði sigrinum. Pytlick hrósaði íslenska liðinu eftir leik.

„Allt til staðar svo að þetta lið geti barist við Dani um gull“

Sérfræðingar Besta sætisins segja reynslu kvöldsins í tapleik í undanúrslitum EM gegn ríkjandi heims- og ólympíumeisturum Dana, vörðu á leið Strákana okkar sem hafi allt til alls til þess að berjast um gullmedalíur við Danina á komandi árum.

Skýrsla Henrys: Strákarnir okkar eru orðnir stórir

Draumurinn um gull á EM er dáinn en draumurinn um verðlaun lifir. Ísland mun spila um bronsverðlaun á sunnudaginn eftir tap, 31-28, gegn frábæru liði Dana. Frammistaða strákanna okkar var þó hetjuleg.

Ein­kunnir Strákanna okkar á móti Danmörku: Hetjuleg frammistaða gegn heimsmeisturunum

Íslenska karlalandsliðið í handbolta leikur um 3. sætið á Evrópumótinu. Þetta var ljóst eftir þriggja marka tap Íslands fyrir Danmörku, 31-28, í undanúrslitum í Jyske Bank Boxen í Herning í kvöld. Frammistaða íslenska liðsins var til mikillar fyrirmyndar en fjórfaldir heimsmeistarar Dana náðu yfirhöndinni um miðjan seinni hálfleik og lönduðu sigrinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×