Innlent

Skútu rak alla leið frá Eng­landi að Skaftafellsfjöru

Agnar Már Másson skrifar
Macavity rak á strendur Íslands á dögunum en fyrir rúmum mánuði var skútan yfirgefinn við England eftir að hún lenti í vandræðum.
Macavity rak á strendur Íslands á dögunum en fyrir rúmum mánuði var skútan yfirgefinn við England eftir að hún lenti í vandræðum. Landhelgisgæslan

Skútu sem var yfirgefin við strendur Englands hefur nú rekið á strendur Íslands. Viðbragðsaðilar uppgötvuðu skútuna í dag þegar neyðarboð fór skyndilega að berast úr ómönnuðum bátnum.

Auðunn Kristinsson hjá Landhelgisgæslunni útskýrir í samtali við Vísi að gæslunni hafi borist boð úr neyðarsendi um hádegi í dag.

Boðið kom frá Skaftafellsfjöru á Skeiðarársandi og voru björgunarsveitir ræstar út, ásamt því sem flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, var send í leitirnar þar sem hún hafði einmitt verið í eftirlitsflugi í efnahagslögsögu Íslands.

Skútan Macavity lenti í vandræðum við England 18. ágúst. Nú hefur hana rekið á strendur Íslands.Skjáskot

Við skoðun kom í ljós að neyðarboðið hafði komið frá breskri seglskútu, Macavity að nafni, sem mun hafa lent í hrakningum við Bretlandseyjar 18. ágúst þar sem þremur mönnum var bjargað af skútunni og hún skilin eftir á reki.

„Síðan hefur hún strandað hér fyrir nokkrum dögum síðan,“ segir Auðunn en um fjórtánda tímann fann TF-SIF skútuna þar sem hún hafði strandað í Skaftafellsfjöru og lá björgunarbátur skammt frá henni.

Svo virðist sem skútan hafi rekið til Íslands í rúman mánuð og hún svo strandað í Skaftafellsfjöru.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var send á vettvang seinnipartinn í dag þar sem stýrimaður þyrlunnar og lögreglumaður af Suðurlandi skoðuðu skútuna og slökktu á neyðarsendi hennar. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að næstu skref verði metin á næstu dögum í samráði við eigendur og tryggingarfélag skútunnar.

Macavity í Skaftafellsfjöru.Landhelgisgæsla



Fleiri fréttir

Sjá meira


×