Vonast er til þess að þjálfunin geti hafist á næstu vikum og á hún að eiga sér stað í Evrópu, samkvæmt heimildarmanni Politico.
Áður höfðu borist fréttir af því að Bandaríkjamenn ætluðu sér ekki að standa í vegi þess að F-16 herþotur yrðu sendar til Úkraínu.
Fjögurra mánaða þjálfun
Blaðamenn Yahoo News komu nýverið höndum yfir skýrslu frá flugher Bandaríkjanna þar sem fram kemur að það myndi taka eingöngu fjóra mánuði að þjálfa úkraínska hermenn í að fljúga F-16 herþotum. Það er mun minni tími en áður hefur verið talað um.
Skýrslunni var deilt með nokkrum ríkjum Atlantshafsbandalagsins, sem nota F-16. Hún byggir á því að tveimur úkraínskum flugmönnum hafi verið boðið til Bandaríkjanna í febrúar og mars, þar sem þeir fengu þjálfun á herþoturnar vestrænu.
Annar flugmaðurinn hafði lokið þjálfun á MiG-29 orrustuþotuna og hinn á Su-27 herþotuna en báðar eru frá tímum Sovétríkjanna. Þeir höfðu hvorugur flogið F-16 en fengu stutta kynningu og voru svo settir í flughermi þar sem geta þeirra var könnuð yfir rúmar ellefu klukkustundir.
Fjórir kennsluflugmenn, sem hafa flogið F-16 þotum í þúsundir klukkustunda, fylgdust með flugmönnunum úkraínsku.
Í áðurnefndri skýrslu segir að úkraínsku mennirnir hafi sýnt tæknilega kunnáttu og getu. Flókinn rafeindabúnaður herþotunnar hafi þó reynst þeim erfiður. Sá búnaður sé þar að auki allur gerður fyrir enskumælandi flugmenn.
Í skýrslunni segir að raunhæft sé að það taki um fjóra mánuði að þjálfa úkraínska flugmenn á F-16. Embættismenn í Bandaríkjunum höfðu áður sagt að slík þjálfun gæti tekið allt að átján mánuði.

Bretar tilbúnir að þjálfa flugmenn
Bretar hafa áður boðist til að þjálfa úkraínska hermenn á F-16 þoturnar.
Sjá einnig: Senda Úkraínumönnum einnig langdræga dróna
Yfirvöld í Bretlandi og Hollandi hafa stofnað nokkurs konar vinnuhóp ríkja um það að flytja F-16 herþotur til Úkraínu. Þær eru í notkun víða en margir eigendur þeirra eru að skipta þeim út fyrir nýrri og háþróaðri herþotur af gerðinni F-35. Þeirra á meðal eru Noregur, Danmörk og Holland.
Fréttakona Politico segir að ákveði ráðamenn einhvers ríkis að senda Úkraínumönnum herþotur muni það taka nokkurn tíma að gera þær klárar. Nú er útlit fyrir að ef af verður, þá verði úkraínskir flugmenn klárir.
Úkraínumenn hafa um árabil reitt sig á gamlar herþotur frá tímum Sovétríkjanna. Margar hafa verið skotnar niður í stríðinu og aðrar hafa bilað en önnur ríki Austur-Evrópu hafa einnig sent gamlar þotur og varahluti til Úkraínu.
Eins og með skriðdreka og önnur vopnakerfi, munu Úkraínumenn þó þurfa að snúa sér að vestrænum vopnum þar sem skotfæri og varahlutir fyrir vopnakerfi frá Sovétríkjunum eru ekki framleidd víða.