Gervigreindin, sem við höfum lesið um í hinum ýmsu framtíðarsögum, er mætt í öllu sínu veldi en sú sem talin er vera best talar nú íslensku. Fyrirtækið Miðeind hefur að undanförnu unnið með bandaríska fyrirtækinu Open AI, sem stendur að baki gervigreindarlíkaninu Chat GPT 4, og kennt greindinni íslensku.
„Þetta er besta og stærsta gervigreindarlíkan sem opið er fyrir almenning og almenna notendur í dag,“ segir Vilhjálmur Þorsteinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Miðeindar sem er hæstánægður með þetta þróunarverkefni.
Vanalega eru stór mállíkön á borð við Chat GTP þjálfuð með ógrynni af textum af internetinu þegar verið er að kenna þeim stór og útbreidd tungumál. Það sama gildir hins vegar ekki um örtunguna íslensku og þurfti greindin smá hjálp.
Mannlegi þátturinn skapar sérstöðuna
„Það sem er einstakt við þetta verkefni er að við fengum 40 sjálfboðaliða hér á landi til að hjálpa okkur við að búa til spurningar og til að meta svör úr þessu gervigreindarneti sem hjálpar til við að ýta því í rétta átt þannig að það kunni betur að skilja og svara á íslensku. Það er þessi mannlegi þáttur sem er svolítið einstakur í þessu og þetta net hefur einungis verið þjálfað með þessum hætti á íslensku og ensku.“
Ævintýrið hófst upprunalega með heimsókn forseta Íslands í Kísildal fyrir tæpu ári en þá funduðu forseti og sendinefnd frá Íslandi með Sam Altman, forstjóra Open AI.
„Ég verð bara að segja eins og er að við þurftum að klípa okkur í handlegginn á hverjum degi við tilhugsunina um að þarna værum við litlu Íslendingarnir í þessu merkilega þróunarverkefni sem ég held að sé alveg veraldarsögulegt.
Í tilefni af fréttum af hinu íslenskumælandi gervigreindarlíkani mælti blaðamaður sér mót við Berg Ebba Benediktsson, rithöfund og fyrirlesara, sem hefur stundað nám í svokölluðum framtíðarfræðum í Toronto og skrifað mikið um gervigreind.
Í ljósi þess að umfjöllunarefnið er nýstárlegt og stundum dálítið flókið ákvað fréttastofa að birta viðtalið við Berg Ebba í heild sinni þar sem hinar ýmsu hliðar á gervigreind eru skoðaðar.
Hér er hægt að nálgast viðtalið í heild fyrir þau sem hafa áhuga á að kynna sér gervigreind nánar.
Bergur segir kenninguna um gervigreind hafa verið til í áratugi.
Hún byggist á því að tölvur geti öðlast hugsun sem jafnast á við mannlega hugsun og í rauninni tekið yfir ýmis verkefni sem mannshugurinn gat áður einungis leyst sjálfur.
En getur þetta framtak jafnvel orðið liður í því að bjarga þessari örtungu?
„Það er alveg hægt að stilla þessu upp svona. Ég var sjálfur að vinna svolítið að þessum máltæknimálum í stjórn Almannaróms og þar var í rauninni markmiðið að koma einkafyrirtækjum, yfirvöldum og akademíska samfélaginu í samstarf við þessi stóru tæknifyrirtæki úti í heimi. Þetta er ótrúlega stórt og göfugt markmið. Stundum stillti maður því upp þannig að þetta sé bara síðasti séns til að bjarga þessu tungumáli okkar. Það er rosalega dramatískt að stilla þessu svona upp, þetta er svona svipað eins og málverndunarsinnarnir á 19. öld þegar við vorum að berjast fyrir sjálfstæði okkar út af erlendum áhrifum frá Danmörku og víðar en kannski er dramatíkin rétta leiðin til að nálgast þetta.“