Skoðun

Vandað, hag­kvæmt, hratt

Eygló Harðardóttir skrifar

Fyrir skömmu birtist í Fréttablaðinu pistill Sigríðar Hrundar Guðmundsdóttur rekstrarhagfræðings um húsnæðismál. Þar segir: „Það er einhvern veginn svo augljóst að það myndi draga úr hækkunum að gera byggingaraðilum auðveldara að byggja íbúðarhúsnæði með minni tilkostaði.“



Þetta er hárrétt athugað og því hafa stjórnvöld lagt mikla áherslu á að ná niður byggingarkostnaði m.a. með því að endurskoða regluverk skipulags- og byggingarmála. Unnar hafa verið veigamiklar breytingar á regluverkinu í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og er það verk nú á lokametrunum.



Í tengslum við gerð kjarasamninga á síðasta ári samþykkti ríkisstjórnin ýmsar mikilvægar aðgerðir á sviði húsnæðismála. Á grunni hennar undirrituðu félags- og húsnæðismálaráðherra, iðnaðar- og viðskiptaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra sameiginlega viljayfirlýsingu um verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ sem hefur það markmið að skoða í víðu samhengi leiðir sem aukið geta fjölbreytni og framboð á hagkvæmum og ódýrum íbúðum, ekki síst í þágu ungs fólks og tekjulágs.



Nýlega var stofnaður svonefndur Byggingavettvangur (BVV) og verður verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ eitt fyrsta verkefni hans. BVV er samstarfsvettvangur fyrirtækja, stofnana, ráðuneyta og annarra aðila sem starfa á þessu sviði, þ.e. Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, Mannvirkjastofnunar, Íbúðalánasjóðs og Samtaka iðnaðarins.



Í samþykktum BVV eru tilgreindir samstarfsaðilar hans, sem eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Hönnunarmiðstöð Íslands, IKEA, Listaháskóli Íslands, Reykjavíkurborg, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og velferðarráðuneytið. Samkvæmt samþykktum BVV greiða stofnaðilar árlega samtals 22 milljónir króna til rekstursins. Þar af greiða velferðarráðuneytið og Íbúðalánasjóður 6 milljónir kr., umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Mannvirkjastofnun fjórar milljónir kr., atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið 6 milljónir kr. og Samtök iðnaðarins 6 milljónir kr. Nýráðinn verkefnastjóri BVV er Hannes Frímann Sigurðsson. Ég bind miklar vonir við að samstarf stjórnvalda og ofangreindra aðila á vettvangi BVV skili fljótt og vel góðum árangri. Þannig nálgumst við takmarkið um að mæta þörf ungs fólks og tekjulágs um vandaðar og hagkvæmar íbúðir.



Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 2. maí.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×