Handbolti

Óðinn bætti við titli um jólin og mætir glaður á EM

Sindri Sverrisson skrifar
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur verið helsti hægri hornamaður landsliðsins undanfarið.
Óðinn Þór Ríkharðsson hefur verið helsti hægri hornamaður landsliðsins undanfarið. Sýn Sport

„Mér líður bara vel, ég er heill og ferskur í skrokknum. Það er bara tilhlökkun núna,“ segir Óðinn Þór Ríkharðsson, hægri hornamaður íslenska handboltalandsliðsins, klár í slaginn fyrir EM sem hefst í næstu viku.

Óðinn og félagar í landsliðinu komu saman til æfinga í Safamýri á föstudaginn og hafa undirbúið sig hér á landi en fljúga svo til Frakklands á fimmtudaginn. Þar spila þeir við Slóveníu klukkan 17:30 á föstudaginn, á fjögurra liða æfingamóti, og svo við annað hvort Frakkland eða Austurríki á sunnudaginn.

Óðinn átti góð áramót hér á landi eftir að hafa fagnað svissneska bikarmeistaratitlinum á milli jóla og nýárs, með liði sínu Kadetten þar sem hann er oftast markahæsti maður. Liðið vann Pfadi Winterthur í úrslitaleiknum 28. desember og Óðinn var svo floginn til Íslands tveimur dögum síðar.

„Ég er mjög glaður með titilinn. Við vorum með undirtökin allan leikinn en þetta var jafn leikur og við þurftum heldur betur að hafa fyrir þessu. Það var ekkert verra [að skora ellefu mörk í úrslitaleiknum],“ sagði Óðinn kátur í Safamýrinni á föstudaginn.

Klippa: Óðinn mætir ferskur á EM

Brátt tekur alvaran við og Óðinn segir að til að byrja með hugsi menn fyrst og fremst um að komast áfram í milliriðla. Ísland er í riðli með Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi og aðeins tvö liðanna komast áfram.

„Við erum með okkar markmið og það er bara riðillinn eins og er,“ sagði Óðinn en viðtalið við hann má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×