Erlent

Waltz bolað úr starfi af Trump vegna Signal skila­boðanna

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mike Waltz starfaði sem þjóðaröryggisráðgjafi Trumps í um fjóra mánuði.
Mike Waltz starfaði sem þjóðaröryggisráðgjafi Trumps í um fjóra mánuði. EPA

Þjóðaröryggisráðgjafa Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur verið bolað úr starfi eftir að hann bætti blaðamanni óvart í spjallhóp á samskiptaforritinu Signal þar sem háleynilegar upplýsingar komu fram. 

„Ég er ánægður að tilkynna að ég mun tilnefna Mike Waltz í embætti sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum,“ skrifar Trump í færslu á samfélagsmiðlinum sínum Truth Social.

Þar greinir hann einnig frá að Marco Rubio utanríkisráðherra taki tímabundið við störfum Waltz og sinnir því báðum embættum samtímis. 

Samkvæmt heimildum New York Times hafði Waltz lengi verið á hálum ís. Staða hans versnaði til muna eftir að hann bætti ritstjóra fjölmiðilsins The Atlantic í spjallhóp á samskiptaforritinu Signal þar sem til umræðu voru háleynilegar upplýsingar um umfangsmiklar árásir Bandaríkjanna á Húta í Jemen. Til að mynda komu þar fram klukkan hvað árásirnar færu fram og hvar. 

Eftir Signal atvikið hafa farið fram samræður fyrir luktum dyrum að skipta Waltz út fyrir einhvern annan. Í fyrri embættistíð Trumps sem forseta skipti hann þrisvar sinnum um þjóðaröryggisráðgjafa.

Auk Waltz og ritstjóranum Jeffrey Goldberg, voru í spjallhópnum JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, Tulsi Gabbard, yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna, Scott Bessent, fjármálaráðherra, Pete Hegseth, varnarmálaráðherra, John Ratcliffe, yfirmaður CIA, Steve Witkoff, erindreki Trumps í Mið-Austurlöndunum og Úkraínu, auk fleiri.

Hegseth, sem var einnig í spjallhópnum með ritstjóranum, bjó til annan spjallhóp þar sem hann deildi háleynilegum upplýsingum með Jennifer Hegseth, eiginkonu sinni og fyrrverandi framleiðanda hjá Fox News, Phil Hegseth, bróður sínum og Tim Parlatore, lögfræðing. Phil Hegseth og Parlatore starfa báðir hjá varnarmálaráðuneytinu í Pentagon. Alls voru tólf manns í hópnum.

Eftir að greint var frá lekanum sagðist Donald Trump standa með Hegseth og neitaði að hann hefði deilt trúnaðarupplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×