Ráðherra segir markmiðið að bregðast við athugasemdum og samræma íslenska löggjöf í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum. „Þetta er í raun og veru viðbragð við því þegar að Ísland lenti eins og við munum á gráum lista vegna þess að í tíð fyrri stjórnvalda vantaði verulega upp á aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Þetta eru fjármálaupplýsingar sem önnur stjórnvöld eru þegar með aðgang að og mér fannst bara fráleitt að lögreglan væri í verri stöðu en Skatturinn eða fjármálaeftirlitið,“ segir Þorbjörg.
Stóra málið snúist um að löggjöf Íslands sé sambærileg við það sem gengur og gerist í samanburðarlöndum og að „Ísland sé ekki lengur útsett fyrir því að vera á gráum lista með löndum á borð við Albaníu, Simbabve og Sýrlandi,“ líkt og ráðherra orðar það.
Hún ítrekar að það sé ekki svo að lögregla geti gengið í fjárhagsupplýsingar borgaranna að tilefnislausu. „Þetta eru upplýsingar sem önnur stjórnvöld hafa aðgengi að án þess að vera með dómsúrskurð, þetta eru upplýsingar sem að liggja fyrir í kerfunum okkar. Þá er ekkert sem segir að lögreglan eigi að vera í verri stöðu hvað það varðar. Þetta er ekki lagasetning sem hefur áhrif á daglegt líf fólks,“ segir Þorbjörg. „Við erum einfaldlega að uppfæra löggjöf á Íslandi vegna gangrýni sem við höfum fengið á alþjóðlegum vettvangi.“
Hún segir efasemdaraddir ekki koma á óvart sem fyrstu viðbrögð við frumvarpinu, en boðaðar breytingar eiga sér eðlilegar skýringar. „Þetta er auðvitað alltaf í beinum tengslum við rannsóknir sakamála og stoðir réttarríkisins eru ekki í hættu.“