Joe Biden fráfarandi forseti Bandaríkjanna skrifaði undir lögin síðasta vor, en á þeim tíma nutu þau mikils stuðnings þingmanna beggja flokka vestanhafs. Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að ógn stafi af Tiktok vegna þeirra valda sem Kommúnistaflokkur Kína hefur yfir miðlinum.
Donald Trump studdi það að banna Tiktok í Bandaríkjunum en snerist hugur fyrir tæplega ári síðan.
Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði í gær að lögin sem samþykkt voru síðasta vor væru lögleg, og bannið muni því taka gildi á morgun sunnudag. Biden hefur sagst ekkert ætla aðhafast í málinu og ákvörðunin verði því á höndum Trump.
Í viðtali við CNN í gær sagði hann að þingið hefði veitt honum umboð til að taka ákvörðun í málinu og að hann myndi taka ákvörðun.
„Mjög líklegt“ að veittur verði 90 daga frestur
Í viðtali við NBC í dag sagði Trump verulegar líkur á því að gildistöku laganna verði frestað um að minnsta kosti 90 daga. Hann hafi eftir sem áður ekki tekið endanlega ákvörðun í málinu.
Eigendur Tiktok hefðu þá 90 daga til viðbótar til að selja miðilinn til eigenda utan Kína, ellegar sæta banni.
„Það er klárlega valkostur sem við horfum til. Níutíu daga framlengingin er eitthvað sem verður að öllum líkindum niðurstaðan, hún er viðeigandi. Þú veist, hún er viðeigandi. Við þurfum að horfa á þetta varlega, þetta er mjög stórt ástand,“ sagði Trump.
„Ef þetta verður ákvörðunin mun ég tilkynna um hana á mánudaginn.“
Óvíst hvað gerist á morgun
Þrátt fyrir að Biden og ríkisstjórn hans hafi ítrekað lýst því yfir að þau muni ekkert aðhafast í málinu á sunnudaginn, hafa eigendur Tiktok ekki viljað treysta því að lögunum verði ekki framfylgt.
Í yfirlýsingu frá teymi Tiktok var sagt að ríkisstjórninni hefði mistekist að útskýra það með skýrum hætti hvernig þau hyggðust ekki framfylgja lögunum, sem taka gildi á morgun. Þess vegna séu þau tilneydd til að loka fyrir Tiktok í Bandaríkjunum strax á morgun.
Um 170 milljónir Bandaríkjamanna eru með Tiktok í sínum tækjum.
Statement on Possible Shutdown
— TikTok Policy (@TikTokPolicy) January 18, 2025
The statements issued today by both the Biden White House and the Department of Justice have failed to provide the necessary clarity and assurance to the service providers that are integral to maintaining TikTok's availability to over 170 million…