Erlent

Hæsti­réttur veitir TikTok banninu blessun sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá útibúi TikTok í Kaliforníu.
Frá útibúi TikTok í Kaliforníu. AP/Damian Dovarganes

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur úrskurðað að lög sem ætlað er að þvinga kínverska eigendur TikTok að selja starfsemi samfélagsmiðilsins í Bandaríkjunum eða loka honum séu lögleg. Að óbreyttu mun bannið taka gildi á sunnudag en eigendur TikTok hafa sagt að þeir muni ekki selja.

Eigendur TikTok höfðu haldið því fram að lögin væru ólögleg á grunni ákvæðis stjórnarskrár Bandaríkjanna um málfrelsi en allir níu dómarar Hæstaréttar voru ósammála því. Ákvörðunin gæti markað endalok samfélagsmiðilsins vinsæla í Bandaríkjunum en það er þó ekki fullvíst.

Um 170 milljónir Bandaríkjamanna nota TikTok en forritið mun ekki hverfa úr símum þessa fólks á sunnudaginn en nýir notendur geta ekki sótt það og það verður ekki uppfært. Að endingu er búist við því að forritið verði ónothæft í Bandaríkjunum.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, skrifaði undir lögin síðasta vor en þau nutu mikils stuðnings þingmanna beggja flokka vestanhafs. Bandaríkjamenn hafa áhyggjur af því að ógn stafi af TikTok vegna þeirra valda sem Kommúnistaflokkur Kína hefur gegn fyrirtækjum þar.

Gefi yfirvöld í Kína fyrirtækjum eins og TikTok skipanir um að afhenda viðkvæmar upplýsingar um notendur eða dreifa áróðri, sé ómögulegt fyrir forsvarsmenn kínverskra fyrirtækja að verða ekki við þeim kröfum.

Biden hefur nú sagt að hann muni ekki framfylgja lögunum á sunnudaginn, sem er hans síðasti dagur í embætti forseta. Ákvörðunin verður því á höndum Donalds Trump.

Heldur spilunum þétt að sér

Hann studdi upprunalega það að banna TikTok í Bandaríkjunum en snerist hugur í fyrra, nokkrum dögum eftir að íhaldssami auðjöfurinn Jeff Yass heimsótti hann í Flórída. Yass var þá hluthafi í TikTok.

Sjá einnig: Snerist hugur um TikTok eftir heimsókn auðjöfurs

Trump hefur þar að auki notið töluverðra vinsælda á TikTok en þar á hann um 14,7 milljónir fylgjenda.

Þegar fréttakona CNN náði af honum tali skömmu eftir að úrskurður Hæstaréttar var birtur sagði Trump að þingið hefði veitt honum umboð til að taka ákvörðun í málinu og að hann myndi taka ákvörðun.

Hann sagði ekki hver sú ákvörðun yrði.

Skömmu áður en úrskurðurinn var birtur sagði Trump frá því að hann hefði rætt við Xi Jinping, forseta Kína, og að TikTok hefði verið meðal umræðuefna. Hann sagði símtalið hafa verið mjög jákvætt og býst hann við því að hann og Xi muni „leysa mörg vandamál“ saman.


Tengdar fréttir

TikTok fær síðasta séns fyrir Hæstarétti

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur ákveðið að taka fyrir mál bandaríska ríkisins gegn samfélagsmiðlinum TikTok, sem að öllu óbreyttu verður bannaður í landinu þann 19. janúar næstkomandi.

Töpuðu málinu og stefnt að því að loka TikTok

TikTok hefur tapað dómsmáli sínu í Bandaríkjunum varðandi lög sem voru sett til að loka miðlinum vestanhafs. Stefnir því allt í að lokað verður fyrir miðilinn í Bandaríkjunum og virðist fátt geta komið í veg fyrir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×