Fastlega er búist við því að Trump hyggi á endurkomu og hefur DeSantis helst verið nefndur sem sá mótherji sem ætti möguleika gegn honum í forvali Repúblikanaflokksins.
Trump sagði í viðtali í gærkvöldi að DeSantis myndi gera mistök, ef hann byði sig fram til forseta og sagðist telja að grasrót flokksins myndi ekki líka sú ákvörðun. Þá hótaði hann því beinlínis að leka út neyðarlegum upplýsingum um DeSantis sem hann sagðist búa yfir.
„Ég veit meira um hann en nokkur annar, jafnvel meira en eiginkona hans,“ sagði forsetinn fyrrverandi og tók fram að þær upplýsingar myndu ekki koma sér vel fyrir DeSantis ef þær litu dagsljósið. Trump fór þó ekki nánar út í þá sálma en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann hótar keppinautum sínum að hann búi yfir meiðandi upplýsingum um viðkomandi.
Síðar í viðtalinu sagði hann þó að DeSantis væri fínn náungi og að það væri ekki vont á milli þeirra, enda væri Trump langt á undan honum í skoðanakönnunum.