Meðal þeirra aðgerða sem Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópu, lagði fram í ræðu sinni til Evrópuþingsins í dag var þak á tekjur orkufyrirtækjanna, en þær væru nú fimmfalt hærri en í venjulegu árferði.
„Á þessum tímum er rangt að taka við einstaklega háum tekjum og hagnaði, græða á stríðinu á herðum neytenda okkar. Á þessum tímum verður að deila hagnaðinum og beina honum til þeirra sem mest þurfa á honum að halda,“ sagði von der Leyen.
Einnig lagði hún til verðþak á endurnýjanlega orku en samanlagt myndi það skila um 140 milljörðum evra til aðildarríkja
Aðrar aðgerðir miði að því að ríkin dragi úr orkunotkun, um að minnsta kosti fimm prósent á álagstímum og tíu prósent í heild, og að umbætur verði gerðar á orkumarkaðinum, þar sem horfa þyrfti til ríkja á borð við Bandaríkin og Noreg.
Mikilvægt væri að Evrópa væri ekki háð Rússlandi þar sem Rússar væru í dag að hagræða markaðinum. Aðgerðirnar sem tilkynnt var um í dag væru tímabundnar og gripið til þeirra í neyð en mikilvægar engu að síður.
Aðildarríki Evrópusambandsins, alls 27 talsins, þurfa að samþykkja aðgerðirnar en Roberta Metsola, forseti Evrópuþingsins, tók tillögunum fagnandi og sagði að þörf væri á aðgerðum til skemmri og lengri tíma.

„Hvað tafarlausar aðgerðir varðar þurfum við mildandi ráðstafanir til að borgararnir geti náð endum saman og geti borgað reikningana fyrir grunnþjónustu sem við höfum tekið sem sjálfsögðum hlut allt of lengi. Við höfum horft fram hjá krefjandi verkefnum allt og lengi.
Pútín muni mistakast og Evrópa sigra
Úkraínska forsetafrúin Olena Selenska var viðstödd í dag og var stríðið ofarlega á baugi í ræðu von der Leyen.
„Þetta er ekki bara stríð Rússlands gegn Úkraínu. Þetta er líka stríð gegn orku okkar. Það er stríð gegn hagkerfi okkar. Þetta er stríð gegn gildum okkar. Þetta er stríð gegn framtíð okkar,“ sagði hún.
„Ég stend hér í þeirri sannfæringu að með nauðsynlegu hugrekki og nauðsynlegri samstöðu, þá muni Pútín mistakast og Úkraína og Evrópa muni sigra að lokum,“ sagði von der Leyen.
Í upprunalegri útgáfu fréttarinnar kom fram að forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins hefði flutt ræðuna fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Hið rétta er að ræðan var flutt fyrir Evrópuþingið.