Í ávarpinu fjallaði forsetinn fráfarandi meðal annars um árásina á þinghúsið í Washington-borg fyrr í þessum mánuði og sagðist sjálfur hafa verið óttasleginn að fylgjast með þegar æstur múgur braut sér leið inn í þinghúsið. Margir pólitískir andstæðingar forsetans hafa sakað hann um að hvetja til óeirðanna og hefur hann meðal annars verið ákærður í þinginu fyrir að hvetja til uppreisnar.
„Pólitískt ofbeldi er árás á allt það sem okkur þykir vænt um sem Bandaríkjamönnum. Það má aldrei líðast. […] Nú þegar ég bý mig undir að afsala völdum mínum til nýrrar stjórnar, á hádegi á miðvikudag, vil ég að þið vitið að hreyfingin sem við komum af stað er rétt að byrja,“ sagði Trump.
Mun biðja fyrir Biden
Trump sagði þá að hann myndi biðja fyrir því að Joe Biden, sem hafði betur gegn honum í forsetakosningunum í nóvember síðastliðnum, yrði farsæll í embætti. Hann talaði þó aðeins um „eftirmann“ sinn eða „nýja ríkisstjórn“ en nefndi Biden sjálfan aldrei á nafn.
Trump verður ekki viðstaddur innsetningarathöfn Bidens. Verður það í fyrsta skipti sem lifandi forseti verður ekki viðstaddur innsetningarathöfn eftirmanns síns í meira en 150 ár.
Ávarp Trumps í heild sinni má sjá hér að neðan.
Á hádegi á morgun, miðvikudaginn 20. janúar, verður Joe Biden svarinn í embætti og verður 46. forseti Bandaríkjanna. Kamala Harris verður fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta og fyrsti varaforsetinn af asískum uppruna.
Biden flaug í dag með leiguflugi frá Delaware til Washington-borgar, þar sem innsetningarathöfnin fer fram. Áður en hann hélt af stað ávarpaði hann hóp stuðningsmanna sinna af tilefni þess að nú hafa yfir fjögur hundruð þúsund Bandaríkjamenn látið lífið af völdum Covid-19.
„Þetta eru myrkir tímar. En þó má alltaf finna ljós,“ sagði Biden áður en hann hélt af stað frá Delaware.