Trump hefur margsinnis rætt um „djúpríkið“ svokallaða, tengslanet frjálslyndra embættismanna sem eiga að hafa staðið í vegi hans og mun forsetinn fráfarandi mögulega skilja slíkt eftir sig.
Samkvæmt umfjöllun Politico hafa margir hápólitískir pólitískt skipaðir embættismenn fært sig yfir í valdamikil opinber störf að undanförnu. Þessum störfum fylgja þar að auki reglur sem gera nýrri ríkisstjórn erfitt að víkja fólki úr þeim. Fjöldi þessara færslna er sagður meiri en gengur og gerist í aðdraganda stjórnarskipta í Bandaríkjunum.
Trump hafði gefið út forsetatilskipun í október sem gerði pólitískum embættismönnum auðveldara með að komast hjá hæfnikröfum og færa sig beint yfir í önnur opinber störf. Þá segir Politico að skortur á gagnsæislögum leiði til þess að mögulega verði ekki hægt að segja til um nákvæmlega hve margir pólitískt skipaðir embættismenn hafi tryggt sig í sessi með því að færa sig í starfi, fyrr en eftir einhverja mánuði.

Búist er við því að Biden muni fljótt fella forsetatilskipun Trumps niður en ráðgjafar hans, verkalýðsfélög, þingmenn og eftirlitsaðilar hafa vakið athygli á málinu og lýst yfir áhyggjum af því að þessir embættismenn muni vinna gegn ríkisstjórn Bidens.
Segjast meðvitaðir um málið
Meðal þess sem Biden-liðar eru sagðir hafa rætt sín á milli er að fá innri endurskoðendur ríkisstofnana til að fara yfir hve margir hafi nýtt forsetatilskipun Trumps til að komast hjá hæfnikröfum og færa sig milli starfa.
Í yfirlýsingu frá Biden-liðum til Politico segir að þar á bæ séu allir meðvitaðir um viðleitni fráfarandi ríkisstjórnar við að færa pólitískt skipaða embættismenn í milli starfa. Unnið verði að því að byggja upp traust innan hins opinbera og farið verði yfir aðgerðir ríkisstjórnar Trumps.
Meðal þeirra sem um ræðir er Michael Ellis. Sá starfaði áður fyrir þingmanninn Devin Nunes, sem er ötull stuðningsmaður Trumps, og er nú orðinn einn af æðstu lögmönnum NSA-leyniþjónustunnar.
Christopher Miller, starfandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, skipaði yfirmanni NSA að skipa Ellis í stöðuna. Það gerði hann skömmu eftir að Trump rak Mark Esper, fyrrverandi varnarmálaráðherra, í tísti eftir forsetakosningarnar í nóvember og skipaði Miller í hans stað.
Líklegasta lausnin að færa fólk í starfi
Politico segir að það gæti reynst ríkisstjórn Bidens tímafrekt og erfitt að reka þetta fólk úr störfum sem þau hafi tryggt sér. Nauðsynlegt sé að sanna að viðkomandi séu ekki hæfir og einnig sé hægt að kanna hvort reglur hafi verið brotnar við hliðfærslur þeirra.
Heimildarmenn miðilsins úr búðum Bidens segja að líklegasta niðurstaðan verði sú að þetta fólk verði fært til í starfi svo það hafi ekki aðgang að leynilegum upplýsingum og hafi ekki áhrif á stefnumál.