Fimmtán aðildarríki Evrópusambandsins hvetja til þess að sambandið móti áætlun til þess að takast á við upplýsingafals um 5G-væðingu fjarskiptakerfa. Annars telja þau að efnahagsbata og þróun fjarskiptakerfi verði stefnt í voða.
Samsæriskenningar um meint tengsl kórónuveirunnar við þráðlaus fjarskiptanet hafa orðið til þess að kveikt hefur verið í fjarskiptamöstrum í tíu Evrópulöndum undanfarna mánuði. Einnig hefur verið ráðist á starfsmenn fjarskiptafyrirtækja.
Svíþjóð og Pólland eru nú á meðal þeirra fimmtán ríkja sem lögðu fram tillögu við framkvæmdastjórn ESB um að taka upplýsingafalsið fastari tökum.
„Það er ljóst að við sjáum vaxandi umsvif and-5G-hreyfingarinnar um allt Evrópusambandið,“ sagði í bréfi ríkjanna. Þau vilja leggja fram sérfræðiþekkingu í að taka á fölskum upplýsingum um 5G-tækni og rafsegulbylgjur.
Leggja þau til frekari vísindarannsóknir á áhrifum á heilsu manna, kynningarherferð í Evrópu og að tekið verði á áhyggjuefnum andstæðinga 5G-tækni, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Næsta kynslóð farneta hefur verið 5G. Með henni stóreykst hraði í gagnaflutningum og öruggi í tengingum. Tæknin er sögð hornsteininn að aukinni sjálfvirkni- og snjallvæðingu framtíðarinnar.
Auk Svíþjóðar og Póllands skrifa Austurríki, Búlgaría, Króatía, Tékkland, Kýpur, Eistland, Finnland, Grikkland, Lettland, Litháen, Lúxemborg, Portúgal og Slóvakía undir bréfið til framkvæmdastjórnarinnar.