Erlent

ESB samþykkir að fresta Brexit og Johnson berst fyrir kosningum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Evrópusambandið hefur samþykkt að fresta útgöngu Bretlands. Ekki verður ákveðið fyrr en eftir helgi hversu lengi útgöngu verður frestað. Sajiv Javid, fjármálaráðherra Bretlands, sagði í morgun að það Bretland myndi ekki ganga út úr Evrópusambandinu þann 31. október, líkt og stefnt hafði verið að og Boris Johnson forsætisráðherra hafði ítrekað lofað.

Johnson var spurður út í ummælin og sagði það nú undir Evrópusambandinu komið hvenær Bretar ganga út. „Eins og staðan er í dag er utgangan 31. október. Þingið, eins og þú veist, ákvað að Evrópusambandið yrði beðið um frestun. Það var ekki mín stefna og ég studdi það ekki. Lagðist alfarið gegn því. Við ættum að ganga út 31. október.“

Eins og Johnson sagði er það nú undir ESB komið að samþykkja eða hafna beiðni ríkisstjórnar Bretlands um frestun. Johnson var skuldbundinn til þess að senda þá beiðni eftir að þingið neitaði því að samþykkja nýjan útgöngusamning ríkisstjórnar hans síðasta laugardag. Þingið hafnaði því einnig að flýta meðferð samningsins á þingi svo afar ólíklegt er að Johnson takist að halda í settan útgöngudag.

Mina Andreeva, upplýsingafulltrúi framkvæmdastjórnar ESB, staðfesti frestun í dag. „Það sem ég get sagt ykkur er að sammælst hefur verið um það að veita frestun og við munum halda áfram þessari vinnu á næstu dögum.“

Johnson ætlar sér nú að reyna að boða til nýrra þingkosninga á Bretlandi. Slík tillaga þarf að fara í gegnum þingið, sem hefur hafnað fyrri kosningatillögum forsætisráðherrans og krafist þess að fyrst sé tryggt að samningslaus útganga sé ekki á borðinu.

„Við viljum hafa það á hreinu að við erum tilbúin til þess að gefa þessu lengri tíma ef, og einungis ef, Verkamannaflokkurinn samþykkir kosningar 12. desember. Ég fæ ekki betur séð en að Verkamannaflokkurinn sé klofinn í afstöðu sinni til nýrra kosninga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×