Erlent

Herinn í viðbragðsstöðu vegna Brexit

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Gert er ráð fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 29. mars með eða án samnings og ríkisstjórnin býr sig undir það versta.
Gert er ráð fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 29. mars með eða án samnings og ríkisstjórnin býr sig undir það versta. vísir/ap
Yfirvöld í Bretlandi hafa ákveðið að setja breska herinn í viðbragðsstöðu til að búa sig undir þann möguleika að Bretland fari úr Evrópusambandinu án samnings í lok mars á næsta ári en hvorki gengur né rekur að sigla Brexit-sáttmálanum í höfn.

Á þriðjudaginn síðasta átti að fara fram atkvæðagreiðsla um samninginn en Theresa May forsætisráðherra Bretlands sló henni á frest því hún vissi að hann yrði felldur í þinginu.

Á skyndifundi ríkisstjórnarinnar í hádeginu í dag sammæltust ráðherrarnir um að ráðast að fullum krafti í að búa almenning og stofnanir landsins undir að takast á við þá erfiðleika sem gætu komið upp ef enginn samningur verður fyrir hendi í lok mars.

Ríkisstjórnin hefur smíðað svokallaðar „varaáætlanir“ fari það svo að Bretland yfirgefi sambandið án samnings.

Í áætlunum ríkisstjórnarinnar felst að 3500 hermenn verða í viðbragðsstöðu, upplýsingabæklingum verður dreift til fyrirtækja um hugsanlegra breytinga á landamærum og þannig á inn-og útflutningi að því er fram kemur á vef Sky News.

Tveir milljarðar punda verða eyrnamerktir samningslausu Brexit, landsmenn munu fá upplýsingar um hvernig þeir eigi að undirbúa sig ef engir samningar nást og þá fer einnig auglýsingaherferð í gang.

Auk þessa verður neyðarnefnd bresku ríkisstjórnarinnar COBRA virkjuð – en hún er virkjuð þegar neyðarástand skapast í landinu – og mun hún funda reglulega.

Gert er ráð fyrir því að Bretar gangi úr Evrópusambandinu 29. mars með eða án samnings.


Tengdar fréttir

Ætlar að leggja fram vantrauststillögu á May

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokks Bretlands,tilkynnti í dag að hann hygðist leggja fram vantrauststillögu gegn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands og formanni Íhaldsflokksins.

Önnur þjóðaratkvæðagreiðsla væri svik við þjóðina

May segir að önnur þjóðaratkvæðagreiðsla væri svik við bresku þjóðina sem hafi nú þegar sagt sína meiningu í atkvæðagreiðslunni árið 2015. Þetta segir May í forsíðuviðtali hjá The Guardian sem verður birt á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×