Atkvæðagreiðslu um útgöngusamning Theresu May forsætisráðherra í breska þinginu sem átti að fara fram í vikunni verður frestað á meðan hún heldur til Brussel og krefur Evrópusambandið um hagstæðari samnings. Allt stefnir í að núverandi samningi verði hafnað í þinginu.
Breska blaðið Sunday Times fullyrðir að May bindi vonir sínar nú við að ná nýjum og betri samningi í Brussel. Hún mun tilkynna í dag að hún ætli að fresta atkvæðagreiðslunni. Andstaðan við þann samning er svo mikil að pólitísk framtíð May er sögð í hættu ef hún tapar atkvæðagreiðslunni með afgerandi mun.
Fram að þessu hefur May haldið fast við að núverandi samningur sé sá eini sem er í boði. Valið standi á milli hans og útgöngu án samnings sem gæti reynst Bretum dýrkeypt eða að ekkert verði af útgöngunni úr Evrópusambandinu, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Nokkrir ráðherrar í ríkisstjórn May sem styðja Brexit og leiðtogar Íhaldsflokksins í þinginu eru sagðir hóta því að segja af sér ef atkvæðagreiðsla fer fram um núverandi samning.
Að óbreyttu ganga Bretar úr Evrópusambandinu í lok mars.
