Skoðun

Við berum ábyrgð á okkar óreiðumönnum

Þorgeir Pálsson skrifar
Í þeirri umræðu, sem fram hefur farið undanfarna mánuði hefur Icesave-málið orðið æ flóknara með hverri vikunni sem liðið hefur. Því er stór hætta á því að aukaatriðin muni þvælast fyrir mörgum sem aldrei fyrr þegar menn gera upp hug sinn varðandi þetta afdrifaríka mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna næstkomandi laugardag. Í huga þess sem þetta ritar er málið hins vegar ekki flókið og er þessi grein rituð til að velta upp hlið málsins, sem ekki hefur fengið mikla umfjöllun.



Þegar breskir og hollenskir sparifjáreigendur lögðu fjármuni inn á Icesave-innstæðureikninga á sínum tíma höfðu þeir fulla ástæðu til að ætla að þessar innstæður væru tryggðar með sama hætti og væru þær á bankareikningum í breskum og hollenskum bönkum. Slíkt var mjög eðlilegt út frá almennum reglum, sem gilda um bankastarfsemi í siðuðum þjóðfélögum. Auk þess kepptust stjórnendur Landsbankans og jafnvel íslenskir embættismenn við að sannfæra markaðinn um að ekkert væri að óttast í þessum efnum. Ljóst má vera að hefði þessum væntanlegu innstæðueigendum verið skýrt frá því, að hinn íslenski Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) væri fjárvana og að íslensk stjórnvöld mundu ekki ábyrgjast skuldbindingar hans gagnvart innstæðueigendum þá hefði lítið orðið um innlán á Icesave-reikningana. Mundir þú lesandi góður leggja fjárupphæð inn á bankareikning, sem nyti engrar innstæðutryggingar og þar sem eina úrræðið væri að gera kröfu í þrotabú bankans ef hann félli?



Það sem verst er í þessu máli öllu er að Icesave-innstæðueigendurnir voru vísvitandi blekktir. Stjórnendum Landsbankans og stjórnvöldum mátti vera fullljóst að íslenski tryggingarsjóðurinn, TIF, var einskis máttugur. Árið 2007 uppfyllti hann ekki einu sinni lágmarkskröfuna um að hafa til ráðstöfunar sem næmi 1% af innstæðum bankakerfisins (sbr. ársreikning sjóðsins 2007) enda var heildareign sjóðsins aðeins 8,4 milljarðar kr. í lok þess árs. Samkvæmt niðurstöðu Rannsóknarnefndar Alþingis var höfuðstóll hans 0,41% af heildarinnstæðum við fall bankanna. Jafnframt lá ekki fyrir nein formleg yfirlýsing stjórnvalda hvað þá heldur lagaleg ákvæði um að ríkissjóður mundi ábyrgjast skuldbindingar TIF. Enda komst seðlabankastjóri svo að orði í samtali við breska sjónvarpsstöð í byrjun mars 2008 að ríkissjóður hefði getu til að ábyrgjast innstæðurnar ef íslenska ríkið kysi að takast slíka ábyrgð á hendur.



Með því að samþykkja fyrirliggjandi Icesave-samning eru Íslendingar einfaldlega að standa við fyrirheit, sem breskum og hollenskum innstæðueigendur höfðu verið gefin án nokkurra athugasemda íslenskra stjórnvalda; það er að segja að sömu ábyrgðir giltu varðandi Icesave-reikningana og sams konar innlánsreikninga annarra banka í þessum tveimur löndum.

Samþykkt Icesave-samningsins nú er skýr yfirlýsing um að Ísland ætli ekki að láta tryggingarsjóð innstæðueigenda, TIF, verða gjaldþrota. Slíkt hefur ekki gerst hjá neinum þeirra þjóða, sem við berum okkur gjarnan saman við á tyllidögum. Jafnframt værum við að viðurkenna þá ábyrgð sem við berum sameiginlega á athöfnum óreiðumannanna, sem unnu að uppbyggingu Icesave með vitund og jafnvel stuðningi stjórnvalda og reyndar stórs hluta þjóðarinnar. Eða vilja landsmenn heldur hafna Icesave-samningnum og taka þá áhættu að vera léttvægir fundnir af dómstólum erlendis eða hérlendis og vera hengdir upp á vegg sem óreiðumenn allir sem einn? Svarið fæst í þjóðaratkvæðagreiðslunni næstkomandi laugardag, hinn 9. apríl.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×