Skoðun

Heilsu­gæslan er fram­tíðin

Eygló Harðardóttir skrifar

Íslendingar hafa löngum verið stoltir af öflugu velferðarkerfi og flaggskip þess hefur verið heilbrigðisþjónustan. Langlífi Íslendinga, lág dánartíðni nýbura, og árangur í meðferð krabbameins eru meðal þess sem bera henni gott vitni. Framsóknarmenn eru hreyknir af því að hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar í heilbrigðisráðuneytinu um árabil. Við núverandi aðstæður hriktir hinsvegar í stoðum velferðarinnar. Miklar kröfur eru gerðar um hagræðingu og niðurskurð og er heilbrigðiskerfið þar ekki undanskilið. Vilji menn hins vegar reyna að hagræða að einhverju ráði er nauðsynlegt að hverfa frá hinum hefðbundna flata niðurskurði og hugsa kerfið upp á nýtt.

Ódýrasta heilbrigðisþjónustan er veitt á heilsugæslunni, en sú dýrasta á hátæknisjúkrahúsunum í Reykjavík og á Akureyri. Því þarf að efla heilsugæsluna. Ein helsta hindrunin við að byggja upp heilsugæsluna er skortur á heimilislæknum. Þessi skortur kemur í veg fyrir að hægt sé að taka upp valfrjálst tilvísunarkerfi, að danskri fyrirmynd, sem hvetur sjúklinga til að leita fyrst í þá heilbrigðisþjónustu sem ódýrust er fyrir samfélagið. Skortur á heimilislæknum og kostnaður við menntun þeirra hefur hvatt margar þjóðir til að leita annarra leiða til að sinna heilsugæslunni og þannig er ekki óalgengt í Bretlandi og Bandaríkjunum að undir stjórn lækna starfi aðstoðarmenn sem sinna ýmsum einfaldari læknisverkum. Í Svíþjóð og víðar eru starfandi hjúkrunarfræðingar sem hafa leyfi til að greina algenga sjúkdóma, ávísa lyfjum og panta rannsóknir. Hér á landi eru þegar nokkrir hjúkrunarfræðingar sem slíka sérmenntun, en án lagaheimilda til að sinna þessum verkefnum.

Til að efla heilsugæsluna og hagræða án þess að fórna velferðinni þarf að auka samstarf og samvinnu milli heilbrigðisstétta og milli heilbrigðiskerfisins og ríkisins. Þannig þarf að veita fjárveitingu til að taka upp valfrjálst tilvísunarkerfi, innleiða nýjar starfsstéttir og efla þær sem fyrir eru og ýta undir þverfaglegt samstarf innan heilsugæslustöðvanna.

Þannig leggjum við grunn að betri heilsugæslu til framtíðar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×