Handbolti

„Fannst við stýra leiknum vel og láta þetta fara í okkar átt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Dagur Sigurðsson er einn af mjög fáum Íslendingum sem fagnar sigri Króata í dag.
Dagur Sigurðsson er einn af mjög fáum Íslendingum sem fagnar sigri Króata í dag. Vísir/Vilhelm

Dagur Sigurðsson, þjálfari króatíska landsliðsins í handbolta, segir að sigurinn gegn Íslandi á EM í dag hafi verið sætur.

„Við vorum komnir með bakið upp við vegg og þess vegna var þetta svona allt eða ekkert fyrir okkur til að vera inni í þessu móti áfram og keppa um eitthvað,“ sagði Dagur í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson í leikslok.

„Ég er bara mjög ánægður með spilamennskuna því hún var ekki góð á móti Svíum. Það hefði verið allt í lagi að tapa á móti Svíu hérna á þeirra heimavelli með góðri frammistöðu, en hún var bara ekki góð. Þannig ég var mjög ánægður að sjá þetta og andann í liðinu. Mér fannst við stýra leiknum vel og láta þetta fara í okkar átt.“

Þá hrósaði Dagur sínum mönnum fyrir að standast hvert einasta áhlaup íslenska liðsins.

„Þeir gerðu áhlaup á okkur og við fengum líka slatta af tveggja mínútna brottvísunum og það voru oft erfiðar mínútur. En ég var ánægður með það að við hlupum betur og betur til baka en við höfum verið að gera og náðum að loka vel á það. Við gáfum þeim ekkert of mörg auðveld mörk.“

Dagur átti þó erfitt með að segja til um hvað hefði skilið á milli liðanna í dag.

„Ég veit það ekki. Mér fannst við ná að keyra bara inn í vörnina í byrjun og það er erfitt að eiga við Srna þarna. Hann er flækjufótur og maður veit aldrei í hvora áttina hann fer. Hann er með rosa skriðþunga og það er erfitt að fara fyrir hann. Mér fannst þeir ráða illa við það,“ sagði Dagur.

„Svo fannst mér bras á þeim í sóknarleiknum sex á móti sex. Svona eftir á að hyggja.“

Að lokum segir Dagur að þrátt fyrir að þetta hafi verið frábær úrslit fyrir króatíska liðið og haldi þeim vel á lífi í mótinu þurfi hans menn að einbeita sér að komandi leikjum.

„Nú þurfum við bara að taka þessa löskuðu leikmenn einhvernveginn og púsla þeim saman fyrir leikinn á móti Sviss.“

„Það er allavega Martinovic sem fékk eitthvað högg og markmaðurinn okkar sem fór út af snemma. Hann kom reyndar aftur og tók eitt víti. Það var þægilegt. En þetta bara er eins og það er,“ sagði Dagur að lokum.

Klippa: Dagur Sigurðsson eftir sigur Króata gegn Íslendingum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×