Viðskipti innlent

Lindex lokað á Ís­landi

Lovísa Arnardóttir skrifar
Myndin er tekin árið 2011 þegar Lindex opnaði á Íslandi.
Myndin er tekin árið 2011 þegar Lindex opnaði á Íslandi. Vísir

Öllum verslunum Lindex verður lokað í síðasta lagi 28. febrúar.  Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, eigandi Lindex, segir engan missa vinnuna við þessi tímamót og að það séu í gangi viðræður um þau verslunarrými sem Lindex hefur verið rekið í.

Fyrsta Lindex-verslunin var opnuð á Íslandi árið 2011. Alls eru reknar tíu verslanir um land allt og eru starfsmenn um hundrað. Eigendur Lindex á Íslandi eru þau Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir og eiginmaður hennar Albert Þór Magnússon. Þau eiga og reka einnig Ginu Tricot, Mango í Smáralind og barnafataverslanirnar Emil og Línu og Mayoral.

Hún segir þau Albert hafa verið í viðræðum við Lindex um nýjan umboðssamning og að þau hafi ekki náð að semja um það. Hún viti ekki hvort vörumerkið verði áfram til sölu á Íslandi eða hvað Lindex í Svíþjóð ætli sér fyrir. Viðskiptavinir sem eiga inneign eða gjafakort eru því hvattir til að nýta það áður en verslunin lokar við lok næsta mánaðar.

„LDX19 hefur með farsælum hætti rekið Lindex á Íslandi í yfir 15 ár, á þeim tíma hefur vörumerkið byggt upp sterkan viðskiptavinahóp og náð frábærum árangri í rekstri fyrirtækisins. Allar Lindex-verslanir á Íslandi munu halda áfram hefðbundnum rekstri fram til um loka janúar 2026. Frekari upplýsingar um tímasetningu lokunar einstakra verslana verða kynntar síðar,“ segir í tilkynningu um lokun.

Hún segir leiðinlegt að kveðja Lindex-vörumerkið en lofar að annað spennandi taki við.

„Maður er með stórt Lindex-hjarta og hefur gert þetta af heilum hug. Það hefur gengið ótrúlega vel. Lindex hefur verið vel tekið. Þetta eru ákveðin þáttaskil,“ segir hún.

Hún segir viðskiptavini ekki þurfa að örvænta, það taki annað við. Hún vilji þó ekki strax greina frá því hvað taki við.

„Við ætlum að halda áfram og munum tilkynna á næstu dögum hvað tekur við,“ segir Lóa Dagbjört og að þau séu í góðu samtali um verslunarrýmin.

„Við erum rosalega spennt fyrir þeim breytingum og ég er viss um að viðskiptavinir okkar muni ekki grípa í tómt.“

Lindex rekur verslanir í Smáralind í Kópavogi, Kringlunni í Reykjavík, Glerártorgi á Akureyri, Firðinum í Hafnarfirði, Holtagörðum í Reykjavík, Reykjanesbæ, Selfossi, Akranesi og á Egilsstöðum. 


Tengdar fréttir

Mayoral til Íslands

Spænska barnafatakeðjan Mayoral opnar tvær nýjar verslanir á Íslandi í vor í gegnum umboðssamning. Annars vegar er um að ræða verslun í Smáralind, sem áðu hýst verslun Vodafone, og hins vegar netverslun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×