Handbolti

„Orð­færið og dóna­skapurinn með ó­líkindum“

Aron Guðmundsson skrifar
Feðgarnir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta og Guðjón Guðmundsson.
Feðgarnir Snorri Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta og Guðjón Guðmundsson. Vísir/Samsett

Guðjón Guð­munds­son, faðir Snorra Steins Guðjóns­sonar lands­liðsþjálfara ís­lenska karla­lands­liðsins í hand­bolta, segir það hafa verið hrika­lega erfitt fyrir sig að fylgjast með um­ræðunni í kringum fyrsta stór­mótið sem Ís­land fór á undir Snorra Steins. Honum bregður stundum orðfærið og dóna­skapurinn sem finna má í um­ræðunni um lands­liðið.

Guðjón sem er einn ástsælasti íþrótta­frétta­maðurinn í sögu þjóðarinnar var gestur í þættinum Big Ben í um­sjón Guð­mundar Bene­dikts­sonar þar sem að talið beindist á einum tíma­punkti að ís­lenska karla­lands­liðinu í hand­bolta.

„Það eru þrjú hundruð þúsund, rúm­lega, aðrir lands­liðsþjálfarar líka sem vita allt um þetta. Hvernig er að vera pabbinn og hlusta á þessa þrjú hundruð þúsund hina lands­liðsþjálfara?“ spurði Guð­mundur Bene­dikts­son, um­sjónar­maður Big Ben og beindi spurningu sinni að Guðjóni.

„Ég skal viður­kenna að það var hrika­lega erfitt á fyrsta mótinu,“ svaraði Guðjón og hélt áfram. „Þá tekur maður þetta svolítið inn á sig en reynir að ýta þessu frá sér. Auðvitað veit maður að það er fullt af kverúlöntum, svo er einn og einn sem maður tekur mark á, veit að hann er að segja alveg rétt og svo fram­vegis. Hinir eru bara svo hrika­lega háværir að manni bregður stundum því að orðfærið og dóna­skapurinn er með ólíkindum.“

Honum hefur hins vegar tekist að ein­angra sig frá um­ræðunni.

„Ég gerði það á síðasta móti, var ekkert að liggja yfir miðlunum eða fylgjast með þessu. Svo held ég að Snorri sé mjög góður að ýta þessu frá sér, hann les þetta ekki. Ef þú getur ekki ein­angrað þetta þá verður þú að snúa þér að ein­hverju öðru.“

Fram­undan er Evrópumótið í hand­bolta og þar er Ís­land að sjálfsögðu á meðal þátt­tökuþjóða. Mótið er haldið í Dan­mörku, Svíþjóð og Noregi. F-riðill Ís­lands er spilaður í Kristian­stad í Svíþjóð og þar eru Strákarnir okkar með Ítalíu, Póllandi og Ung­verja­land í riðli. Fyrsti leikur Ís­lands á mótinu er gegn Ítalíu þann 16.janúar næst­komandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×