Erlent

Stefnir í fyrstu ríkisstöðvunina í sjö ár

Samúel Karl Ólason skrifar
Russell Vought yfirmaður fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins, Mike Johnson forseti fulltrúadeildarinnar, John Thun leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, og JD Vance varaforseti eftir fund með leiðtogum Demókrata í Hvíta húsinu í gær.
Russell Vought yfirmaður fjárlagaskrifstofu Hvíta hússins, Mike Johnson forseti fulltrúadeildarinnar, John Thun leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, og JD Vance varaforseti eftir fund með leiðtogum Demókrata í Hvíta húsinu í gær. AP/Evan Vucci

Ekkert virðist geta komið í veg fyrir stöðvun reksturs alríkis Bandaríkjanna í nótt. Repúblikanar og Demókratar, sem deila um fjárútlát til heilbrigðismála, keppast við að kenna hvor öðrum um en þetta verður í fyrsta sinn í sjö ár sem deilur um fjárlög leiða til að stöðvunar.

Fundur milli leiðtoga þingsins og Donalds Trump, forseta, í Hvíta húsinu í gær skilaði engum árangri. Eftir fundinn sagði Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeildinni, að málið væri nú í höndum Trumps. Hann gæti komið í veg fyrir stöðvun ríkisreksturs.

Eftir fundinn sagði JD Vance, varaforseti, að útlit væri fyrir að rekstur ríkisins yrði stöðvaður og kenndi hann Demókrötum um og sagði þá ekki tilbúna til að „gera hið rétta,“ samkvæmt AP fréttaveitunni.

Wall Street Journal hefur eftir Vance að Demókratar séu engu skárri en gíslatökumenn.

Stöðvunin mun hefjast á miðnætti vestanhafs, ef öldungadeildin samþykkir ekki fjárlagafrumvarp sem þegar hefur verið samþykkt í fulltrúadeildinni.

Rekstur ríkisins var síðast stöðvaður í desember 2018 og stóð lokunin yfir í 35 daga. Rekstur varnarmálaráðuneytisins og nokkurra annarra stofnana var þó ekki stöðvaður. Síðasta allsherjarstöðvunin var 2013 en hún stóð yfir í sextán daga.

Komu ekkert að frumvarpinu

Ítarlega var farið yfir ástæður deilnanna í síðustu viku en í stuttu máli sagt vilja Demókratar í öldungadeildinni, þar sem Repúblikanar þurfa nokkur atkvæði frá Demókrötum, ekki samþykkja bráðabirgðafjárlagafrumvarp Repúblikana.

Er það vegna þess að Repúblikanar ræddu frumvarpið ekkert við Demókrata áður en það var lagt fyrir þingið og samkvæmt því ætla Repúblikanar að láta ívilnanir varðandi heilbrigðistryggingar falla úr gildi. Demókratar vilja einnig að Repúblikanar hætti við niðurskurði til tryggingakerfis sem kallast Medicaid.

Þar að auki hafa Demókratar gagnrýnt harðlega að ríkisstjórn Trumps hefur neitað að fara eftir fjárlögum þingsins í þó nokkrum tilfellum, þykir fjárútlátin ekki fylgja áherslum ríkisstjórnarinnar.

Repúblikanar hafa ekkert viljað koma til móts við Demókrata og hafa þess í stað reynt að þvinga þá til að samþykkja frumvarpið með því að hóta því að reka þúsundir opinberra starfsmanna.

Fara með fleipur um kröfur Demókrata

Repúblikanar, sem eru með meirihluta í báðum deildum þingsins og með Donald Trump í Hvíta húsinu, hafa ítrekað haldið því fram að Demókratar beri ábyrgðina á ástandinu og það sé þeim að kenna að stöðva verði rekstur ríkisins. Þeir hafa sagt að Demókratar eigi að samþykkja frumvarpið og nota svo tímann til næstu fjárlaga til frekari viðræðna.

Demókratar treysta Repúblikönum ekki og í millitíðinni myndu áðurnefndar ívilnanir renna úr gildi og farið yrði í niðurskurð í Medicaid.

Leiðtogar Repúblikanaflokksins, eins og Mike Johnson forseti fulltrúadeildarinnar, Vance og margir aðrir, hafa haldið því fram að kröfur Demókrata snúist um að verja fúlgum fjár til heilbrigðisþjónustu fyrir fólk sem dvelur ólöglega í Bandaríkjunum, eins og sjá má í meðfylgjandi færslu frá opinberum X reikningi Hvíta hússins.

Það er rangt.

Fólk sem er ekki með dvalarleyfi í Bandaríkjunum getur ekki fengið aðgang að heilbrigðistryggingum og öðru sem fjármagnað er af alríkinu, eins og fram kemur í grein New York Times.

Innflytjendur sem eru í Bandaríkjunum ólöglega geta ekki keypt tryggingar sem niðurgreiddar eru af ríkinu og hafa heldur ekki aðgang að Medicaid eða öðrum sambærilegum verkefnum ríkisins.

Fjölmiðlar ytra segja að innan Repúblikanaflokksins sé nánast enginn vilji til að framlengja ívilnanirnar eða taka niðurskurð til baka. Það væri ómögulegt að fá næg atkvæði innan flokksins ef leiðtogar flokksins hefðu yfir höfuð áhuga á því.

Ítrekað basl með fjárlög

Repúblikanar hafa frá því þeir töku völd í þinghúsinu verið í stöðugu basli með fjárlög. Innan flokksins er fámennur en þó áhrifamikill hópur þingmanna sem hefur lengi barist fyrir umfangsmiklum niðurskurði og endurbótum þegar kemur að fjárútlátum ríkisins.

Það hefur tiltölulega oft gerst að bráðabirgðafjárlög eru samþykkt skömmu fyrir stöðvun ríkisreksturs og gerðist það síðast í mars. Þá náðu Repúblikanar í fulltrúadeildinni höndum saman um bráðabirgðafrumvarp en þátt átti sér litla von í öldungadeildinni. Það er að segja þar til Schumer, leiðtogi Demókrata þar, lýsti því yfir að hann ætlaði að greiða atkvæði með frumvarpinu.

Hann sagði það skárri kostinn af tveimur slæmum.

Sjá einnig: Lúffar af ótta við enn meira niðurrif Trumps

Þetta reiddi fjölmarga stuðningsmenn Demókrata, og aðra þingmenn, til reiði. Innan flokksins og meðal grasrótarinnar er mikill vilji til að standa í hárinu á Repúblikönum og Trump.

Punchbowl News segir að Schumer hafi nú reitt fólk aftur til reiði með því að stinga upp á bráðabirgðafjárlögum til einungis viku á fundinum með Trump í gær. Þær ætlanir láku til fjölmiðla fyrir fundinn og þótti mörgum Demókrötum tillagan benda til þess að Schumer ætlaði aftur að feta eigin slóð.

Svo virðist þó sem að Schumer og Hakeem Jeffries, leiðtogi Demókrata í fulltrúadeildinni, hafi ekki lagt fram þessa tillögu og þykir það benda til þess að Schumer hafi gefið hugmyndina upp á bátinn.

Demókratar eru sagðir telja að Trump vilji semja en að Johnson og John Thune, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, hafi stöðvað hann. Þeir telja sig með góð spil á hendi til að koma höggi á Demókrata.

Schumer og Jeffries sögðust þó á fundinum vilja semja við Trump en ekki Thune og Johnson og sögðu, samkvæmt heimildum Punchbowl, að það væri vegna þess að Trump væri besti samningamaðurinn, sem Trump samþykkti.

Þykir það til marks um að Demókratar sjái tækifæri í því að reyna að reka fleyg milli Trumps annars vegar og Johnsons og Thunes hins vegar. Hvort þær vonir muni raungerast verður að koma í ljós.

Hvað felur stöðvun í sér?

Við hefðbundnar kringumstæður þarf tólf frumvörp til að samþykkja hefðbundin fjárlög í Bandaríkjunum. Það hefur gengið sífellt erfiðara og erfiðara á undanförnum árum. Hið hefðbundna ferli getur tekið töluverðan tíma og mikla vinnu og því hefur sífellt oftar verið gripið til þess að semja og samþykkja bráðabirgðafjárlög til skamms tíma.

Slík frumvörp kallast „continuing resolution“ eða CR.

Takist hvorki að samþykkja CR eða frumvörp til lengri tíma, stöðvast rekstur ríkisins. Það felur í sér að opinberar stofnanir þurfa að senda alla starfsmenn sem teljast ekki nauðsynlegir heim og opinberir starfsmenn fá ekki laun þar til áðurnefnd frumvörp hafa komist í gegnum þingið.

Þetta myndi eiga við um tvær milljónir starfsmanna herafla Bandaríkjanna og rúmlega tvær milljónir annarra opinberra starfsmanna víðsvegar um Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×