Innlent

Báturinn áður sokkið í sömu höfn og án skýringar

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Jökull liggur enn hálfsokkinn við Óseyrarbryggju.
Jökull liggur enn hálfsokkinn við Óseyrarbryggju. Vísir/Viktor Freyr

Áttatíu tonna trébátur sökk í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöld og líkt og greint hefur verið frá eru tildrögin til rannsóknar hjá lögreglu. Þetta er hins vegar í annað sinn á síðustu fimm árum sem þessi sami bátur sekkur bundinn við höfn og í fyrra skiptið fannst engin skýring á því af hverju hann sökk.

Það var Jökull SK-16 sem sökk þar sem hann lá bundinn við Óseyrarbryggju í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. Slökkvilið var sent á vettvang upp úr klukkan átta en ekki var hægt að dæla upp úr bátnum þar sem hann var sokkinn upp að gluggum í stýrihúsi. Í því ástandi er báturinn enn.

Jökull er tæplega sjötíu ára bátur og var smíðaður í Þýskalandi. Hann var gerður út frá Sauðarkróki af útgerðinni Gamli og synir ehf. Líkt og fyrr segir hefur hann áður sokkið bundinn við sömu bryggju. Síðast sökk hann í ágúst ársins 2020. Rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsakaði málið en fann enga skýringu á því að báturinn hefði sokkið.

Við rannsókn nefndarinnar kom fram að í fyrra sinn sem báturinn sökk hafði hann legið við bryggju í fimm ár og að haffærisskírteini hans hafði runnið út árið 2015. Báturinn hafði þá orðið siginn í sjónum þremur dögum áður en hann sökk.

Þegar búið var að taka bátinn upp og dæla úr honum reyndist enginn leki vera að honum. Enginn skýring fannst á því af hverju hann sökk.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×