Erlent

Munu leggja fram vísinda­legar sannanir fyrir því að Brigitte sé líf­fræði­lega kona

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Staðhæfingar um að Brigitte sé trans kona eru aðeins hluti af stærri samsæriskenningu Owens um fjölskyldu forsetafrúarinnar.
Staðhæfingar um að Brigitte sé trans kona eru aðeins hluti af stærri samsæriskenningu Owens um fjölskyldu forsetafrúarinnar. epa/Andy Rain

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og eiginkona hans Brigitte Macron munu leggja fram myndir og vísindaleg sönnunargögn fyrir dómstól í Bandaríkjunum til að sanna að Brigitte sé líffræðilega kona.

Fá þessu greindi lögmaður þeirra í samtali við hlaðvarpsþáttinn Fame Under Fire á BBC.

Forsetahjónin hafa höfðað mál á hendur áhrifavaldinum og hlaðvarpsstjórnandanum Candace Owens, sem heldur því staðfastlega fram að Brigitte sé trans kona og hefur framleitt heila þáttaröð um málið.

Lögmenn Owens hafa farið fram á að málinu verði vísað frá dómi.

Lögmaður Macron-hjónanna, Tom Clare, segir framferði Owens hafa haft veruleg áhrif á Brigitte og haft truflandi áhrif á forsetann. Það hafi ekki hamlað störfum hans en það sé óneitanlega þreytandi þegar ráðist sé á fjölskyldu manns.

Clare sagði von á vísindalegum vitnisburði fyrir dómstólnum. Hann vildi ekki útlista hvað nákvæmlega yrði lagt fram en sagði að forsetahjónin væru reiðubúin til að sanna það bæði „almennt og sérstaklega“ að staðhæfingar Owens væru ósannar.

Það væri afar erfitt að neyðast til að grípa til þessara aðgerða en Brigitte væri viljug til þess að opna sig til þess að leiða málið til lykta. Owens hefur fyrir sitt leyti sagst vera tilbúin til að leggja orðspor sitt að veði, svo sannfærð sé hún um að Brigitte sé líffræðilega karl. 

Samkvæmt lögum í Bandaríkjunum munu forsetahjónin bæði þurfa að sýna fram á það að Owens hafi rangt fyrir sér og að hún hafi vitað að staðhæfingar hennar væru rangar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×