Erlent

Leið­togar Bret­lands, Frakk­lands og Kanada hóta að­gerðum gegn Ísrael

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Myndin er tekin í gær á norðanverðri Gasaströndinni. Íbúar flýja þar í kjölfar þess að gefin var úr rýmingarviðvörun.
Myndin er tekin í gær á norðanverðri Gasaströndinni. Íbúar flýja þar í kjölfar þess að gefin var úr rýmingarviðvörun. Vísir/EPA

Leiðtogar Bretlands, Frakklands og Kanada krefjast þess í sameiginlegri yfirlýsingu sem birtist í morgun að Ísraelar breyti um kúrs á Gasa svæðinu ella verði gripið til aðgerða. 

Í yfirlýsingunni sem undirrituð er af Keir Starmer, Emmanuel Macron og Mark Carney nýjum forsætisráðherra Kanada segir að láti Ísraelar ekki af sókn sinni inn á Gasa og létti á herkvínni sem svæðið hefur verið í um margra vikna skeið munu löndin þrjú grípa til aðgerða.

Leiðtogarnir krefjast þess einnig að Hamas samtökin sleppi öllum þeim gíslum sem enn eru í haldi eftir árásina hrottalegu inn í Ísrael þann 7. október 2023. Leiðtogarnir segjast ávallt hafa stutt við rétt Ísraela til þess að verjast hryðjuverkum, en að aðgerðirnar nú séu í engu samræmi við hina raunverulegu stöðu. 

Bíll með hjálpargögnum sem bíður þess að vera ekið inn á Gasa. Vísir/EPA

Þrjátíu og átta eru sagðir hafa látið lífið í loftárás sem gerð var í nótt á Gasa og stóð aðeins yfir í rúman hálftíma. Ísraelar tilkynntu um helgina að þeir myndu hleypa ákveðnu magni hjálpargagna inn á Gasa, eftir ellefu vikna langa herkví. Tom Fletcher, yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að sú hjálp sé aðeins dropi í hafið miðað við hina raunverulegu þörf.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Spánar vill Ísrael í bann frá Eurovision

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, lýsti í dag yfir þeirri skoðun sinni að Ísrael ætti ekki að fá að taka þátt í Eurovision vegna hernaðaraðgerða landsins á Gasa. Hann gagnrýndi Samtök evrópskra ríkissjónvarpsstöðva (EBU) fyrir tvískinnungshátt með því að leyfa Ísrael að keppa, á meðan Rússland var útilokað eftir innrás sína í Úkraínu árið 2022.

Ísraelsk stjórnvöld segjast ætla að hleypa hjálpargögnum á Gasa

Ísraelsk stjórnvöld segja að nú standi til að hleypa ákveðnu magni af hjálpargögnum inn á Gasa svæðið eftir ellefu vikna herkví sem hefur ýtt svæðinu á barm hungursneyðar. Netanjahú forsætisráðherra segir að hungusneyð á svæðinu myndi gera hernum erfiðara fyrir í sókninni inn á svæðið sem nú er hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×