Sport

Lét dóttur sína hlaupa þrátt fyrir að hún ætti erfitt með að anda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gjert Ingebrigtsen er sakaður um að hafa beitt börn sín ofbeldi.
Gjert Ingebrigtsen er sakaður um að hafa beitt börn sín ofbeldi. epa/VIDAR RUUD

Þrátt fyrir að eiga í erfiðleikum með að anda eftir að hafa gleymt að taka astmalyf sín lét Gjert Ingebrigtsen dóttur sína, Ingrid, halda áfram að hlaupa.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fjórða degi réttarhaldanna yfir Gjert. Hann er sakaður um að hafa beitt Ingrid og bróður hennar, Ólympíumeistarann Jakob, andlegu og líkamlegu ofbeldi.

Í gær rifjaði Ingrid upp þegar faðir hennar neyddi hana til að halda áfram að hlaupa á hlaupabretti á heimili fjölskyldunnar, þrátt fyrir að hún ætti erfitt með andardrátt eftir að hafa gleymt að taka astmalyf sín.

„Ég endaði á því að stökkva af hlaupabrettinu, hljóp upp í herbergið mitt og andaði. Ég reyndi að róa mig. Ég sagðist vilja hætta í íþróttum,“ sagði Ingrid.

Sá enga framtíð

Ingebrigtsen-fjölskyldan var til umfjöllunar í afar vinsælum raunveruleikaþáttum í Noregi, Team Ingebrigtsen. Eftir atvikið á hlaupabrettinu segist Ingrid hafa brotnað saman fyrir framan sjónvarpsfólkið.

„Þeir spurðu mig venjulegrar spurningar, um framtíðina á ferlinum. Þá sá ég enga framtíð og brotnaði saman. Ég gat ekki stjórnað neinu. Þeir horfðu á mig skelfingu lostnir og viðtalinu lauk,“ sagði Ingrid sem var fimm ára þegar tökur á þáttunum hófust. Hún er átján ára í dag.

Í réttarhöldunum rifjaði Ingrid einnig upp þegar faðir hennar sló hana með blautu handklæði í andlitið þegar hún vildi fara út með vinum sínum. Að hennar sögn var Gjert afar ósáttur með að hún hafi viljað hætta að hlaupa.

„Hann gat hunsað mig algjörlega. Mér leið eins og hann væri reiður út í mig. Einn daginn sagðist ekki sjá mig lengur sem dóttur sína,“ sagði Ingrid.

Atvikið þegar Gjert sló Ingrid í andlitið með handklæðinu varð til þess að bræður hennar slitu á öll samskipti við hann og ráku hann sem þjálfara þeirra.

Réttarhöldin í málinu munu standa til 16. maí. Verði Gjert fundinn sekur gæti hann átt yfir höfði sér sex ára fangelsi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×