Íslenska karlalandsliðið í fótbolta varð að sætta sig við 2-1-tap gegn Kósovó í kvöld, í fyrsta leiknum undir stjórn Arnars Gunnlaugssonar. Ísland þarf því að vinna upp eins marks forskot þegar liðin mætast í seinni leik sínum, í Murcia á Spáni á sunnudag, í umspilinu um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar.
Kósovó komst yfir á 19. mínútu þegar Lumbardh Dellova skoraði með skoti rétt utan teigs, án þess að liðin hefðu mikið skapað fram að því.
Íslenska liðið jafnaði sig hins vegar strax á því og nýi fyrirliðinn, Orri Steinn Óskarsson, skoraði eftir frábæran undirbúning Ísaks Bergmanns Jóhannessonar sem fékk tækifæri í byrjunarliði á miðjunni með félaga sínum af Skaganum, Hákoni Arnari Haraldssyni. Orri fór laglega framhjá markverði Kósovó og skoraði af öryggi úr þröngu færi.
Staðan var 1-1 í hálfleik en Elvis Rexhbecaj skoraði sigurmark heimamanna á 58. mínútu, eftir skelfileg mistök Hákonar Arnars sem missti boltann nærri eigin vítateig. Íslensku strákarnir vildu sjá aukaspyrnu dæmda á Rexhbecaj en hollenskur dómari leiksins sá atvikið vel og dæmdi ekkert.
Kósovó kom boltanum í markið í þriðja sinn en það mark var réttilega dæmt af vegna hendi.
Þurfa að vinna hratt úr upplýsingum
Arnar fékk enga vináttulandsleiki fyrir þessa frumraun sína sem landsliðsþjálfari og hans nýju lærisveinar hafa því þurft að vinna hratt úr öllum upplýsingum og breytingum. Það skilaði sér líklega í ákveðnu óöryggi í leik Íslands og sigur Kósovó var fyllilega verðskuldaður. Það munar hins vegar bara einu marki í einvíginu og enn gott tækifæri til að forðast það að falla niður í C-deild.
Arnar tefldi fram þremur reynsluboltum aftast á vellinum, í Aroni, Sverri og Guðlaugi Victori, með ungu Skagamennina Hákon Arnar og Ísak þar fyrir framan. Logi og Mikael Egill voru á vængjunum og þeir Albert, Andri Lucas og Orri fremstu menn.
Kósovó hafði ekki skapað sér neitt sérstök færi áður en liðið komst yfir en þó fundið gott pláss á milli varnar og miðju Íslands, og átt tvö skot við vítateiginn rétt eins og þegar Dellova skoraði svo.
Sem betur fer þaggaði Orri strax í fullsetnum leikvangnum með jöfnunarmarki á 23. mínútu og Ísland átti fínar sóknir í kjölfarið. Orri var svo nálægt því að tvöfalda forskotið skömmu fyrir hálfleik en skot hans var varið af góðum markverði Kósovó, Arijanet Muric.
Þriðja markið fékk ekki að standa
Heimamenn voru sterkari í byrjun seinni hálfleiks, lágu þungt á íslenska liðinu og gekk betur að skapa sér færi. Það var því ekkert óeðlilegt að þeir kæmust yfir en svekkjandi að það skyldi gerast með mistökum Hákonar Arnars, sem annars var svo gott að sjá aftur kominn í landsliðsbúninginn eftir að hafa misst af haustinu vegna meiðsla. Skot Rexhbecaj var óverjandi, í stöng og inn.
Kósovó var nær því að skora fleiri mörk og Hákon Rafn varði til að mynda úr dauðafæri, með andlitinu, en virtist svo hafa gert afar slæm mistök þegar hann náði ekki til fyrirgjafar og Amir Rrahmani skoraði. Sá hafði hins vegar snert boltann með báðum höndum og markið fékk sem betur fer ekki að standa.
Góður með bandið
Orri komst næst því að jafna fyrir Ísland þegar hann skrúfaði boltann í hægra hornið úr teignum en Muric varði frábærlega í horn. Fyrirliðinn ungi virtist kunna vel við sig með bandið og var bestur í íslenska liðinu í kvöld.
Varamaðurinn Jón Dagur Þorsteinsson kom sér svo í dauðafæri með frábærum töktum í teignum en fast skotið var nánast beint á Muric sem hélt boltanum.
Niðurstaðan 2-1 tap og fari svo að slakt lið Kósovó sendi Ísland niður í C-deild verður eftirvæntingin mikla fyrir fyrstu leikjum Arnars fljót að breytast í vonleysi yfir því hve langt virðist enn í land með að Ísland snúi aftur á stórmót.
Strákarnir okkar ferðast nú í nótt til Spánar og fá þar örstuttan undirbúning fyrir einstakan viðburð í lýðveldissögunni, þegar Ísland spilar í fyrsta sinn heimaleik erlendis vegna óviðunandi vallarmála hér á landi.