Íslenski boltinn

Peder­sen fram­lengir við Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Patrick Pedersen fagnar einu 116 marka sinna í efstu deild.
Patrick Pedersen fagnar einu 116 marka sinna í efstu deild. vísir/anton

Patrick Pedersen, markahæsti erlendi leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við Val.

Pedersen hefur spilað með Val nánast samfleytt frá miðju sumri 2013. Hann hefur leikið 189 leiki í efstu deild á Íslandi og skorað 116 mörk.

Hann er þriðji markahæsti leikmaðurinn í sögu efstu deildar. Aðeins Tryggvi Guðmundsson (131) og Ingi Björn Albertsson (126) eru fyrir ofan Pedersen á markalistanum. Danann vantar aðeins sextán mörk til að verða markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi. 

Samningurinn sem Pedersen skrifaði undir við Val í dag gildir út árið 2026 með möguleika á árs framlengingu. Pedersen er fæddur 1991 og verður 34 ára í nóvember. Á síðasta tímabili skoraði Pedersen sautján mörk í Bestu deildinni. Valsmenn enduðu í 3. sæti.

Pedersen varð Íslandsmeistari með Val 2017, 2018 og 2020 og bikarmeistari 2015. Hann var valinn besti leikmaður Íslandsmótsins 2018. Pedersen fékk gullskóinn fyrir að vera markahæsti leikmaður tímabilsins 2015 og 2018.

Pedersen og félagar hans í Val mæta Fylki í úrslitaleik Lengjubikarsins á morgun. Leikurinn hefst klukkan 14:00 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×