Íslenski hópurinn hefur verið við æfingar á svæðinu og leikur þar annan vináttulandsleik á þriðjudag, gegn Skotum. Í millitíðinni spilar A-landslið Íslands í borginni Murcia, við Kósovó á sunnudaginn.
Sigur Íslands í dag var sannfærandi en liðið komst yfir eftir korters leik. Helgi Fróði Ingason lék þá svo illa á varnarmann Ungverja að hann rann á rassinn, og sendi svo fyrirgjöf inn í teiginn þar sem Hilmir Rafn Mikaelsson, fyrsti atvinnumaðurinn frá Hvammstanga, var og skoraði með hörkugóðum skalla.
Ísland komst svo í 2-0 á 36. mínútu eftir aðra góða sókn fram vinstra megin. Helgi Fróði gaf á Daníel Frey Kristjánsson sem sendi fyrir markið og þar reyndi fyrirliði Ungverja að koma í veg fyrir að Hilmir Rafn næði boltanum en skoraði þá klaufalegt sjálfsmark.
Hinrik Harðarson, einn nýjasti atvinnumaður Íslands, kom svo inn á í sínum fyrsta leik í bláu treyjunni þegar hann leysti Benoný Breka Andrésson af hólmi í hálfleik. Hann fann netmöskvana í sínum fyrsta landsleik.
Hinrik skoraði þriðja mark Íslands á 70. mínútu með góðu skoti í stöng og inn eftir frábæra skyndisókn. Ungverjar tækluðu tvo Íslendinga niður á leiðinni fram völlinn en dómarinn gerði vel í að leyfa leiknum að halda áfram sem skilaði sér í marki.