Rétt tæpur fjórðungur svarenda í nýrri könnun Maskínu segist bókstaflega andvígur framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýrinni en 48 prósent eru henni hlynnt, þar af þriðjungur mjög hlynntur. Um 29 prósent segjast í meðallagi hlynnt staðsetningunni.
Hlutfallið sem er hlynnt núverandi staðsetningu flugvallarins hefur aldrei verið lægra í könnun Maskínu. Það var vel yfir helmingur í september í fyrra og í mars árið 2018. Árið 2013 sögðust 72 prósent hlynnt veru flugvallarins í Vatnsmýri.
Hlutfall andvígra hefur á sama tíma haldist nokkuð stöðugt í kringum fjórðung svarenda frá 2016.
Færri eru hlynntir flugvelli í Vatnsmýri í Reykjavík en annars staðar á landinu en þar er hlutfallið 38 prósent. Til samanburðar sögðust 59 prósent landsbyggðarbúa vilja hafa flugvöllinn áfram þar sem hann er og 47 prósent íbúa í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur.
Gríðarlegur munur er á afstöðu fólks til flugvallarins eftir aldri. Þannig segjast 71 prósent fólks sextíu ára og eldra fylgjandi núverandi staðsetningu flugvallarins við miðborgina en aðeins tæpur fimmtungur yngsta aldurshópsins, 18-29 ára. Hlutfall þeirra sem styðja staðsetninguna fer jafnframt hækkandi eftir aldri svarenda.
Af kjósendum einstakra flokka eru framsóknar-, miðflokks og sjálfstæðisfólk mest fylgjandi því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýri, um og yfir sjötíu prósent þeirra. Kjósendur Pírata og Sósíalistaflokksins eru mest á móti staðsetningunni en um yfir helmingur þeirra segist andvígur staðsetningunni í könnuninni.
Fréttin hefur verið uppfærð.