Erlent

„Sam­rýmist að miklu leyti okkar sýn“

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Péskov t.h. er helsti talsmaður Rússlandsstjórnar Pútíns t.v.
Péskov t.h. er helsti talsmaður Rússlandsstjórnar Pútíns t.v. AP

Rússlandsstjórn fagnar nýrri þjóðaröryggisstefnu Bandaríkjanna ákaft. Talsmaður Kremlar segir hana að miklu leyti samræmda stefnu Rússa.

Þessi ummæli hefur Guardian eftir Dmítríj Péskov talsmanni rússnesku ríkisstjórnarinnar. Þau eru viðbrögð við nýbirtri þjóðaröryggisstefnu sem stjórnvöld í Washington birtu á föstudaginn þar sem samband Bandaríkjanna og Rússlands er sagt forgangsatriði, sem og að kynda undir óstöðugleika innan lýðræðisríkja Evrópu.

Bandaríkjastjórn segir Evrópuríki þagga niður í andstöðu og sýna af sér alræðistilburði á sama tíma og Trump Bandaríkjaforseti stendur í málaferlum við alla helstu fjölmiðla Bandaríkjanna sem allir helstu greinendur sammælast um að sé blanda af fjárkúgun og ritskoðun.

Fagnað í Kreml

Nýkynntar áherslur Trumpstjórnarinnar í alþjóðamálum hafa fallið mjög vel í kramið hjá Pútín.

„Breytingarnar sem við erum að sjá eru að miklu leyti í samræmi við okkar sýn,“ er haft eftir Péskov.

Hann fagnaði því ákaft að Trumpstjórnin vildi þétta böndin landanna á milli. Hann varaði í leiðinni við því að „djúpríkið“ svokallaða myndi leggja sig fram við að spilla framtíðarsýn Trumps.

Tengdasonurinn og gamli golffélaginn

Þjóðaröryggisstefnan var birt á meðan fulltrúar Úkraínu funduðu með golffélaga Trumps sem hann hefur gert sérstakan erindreka og tengdasyni Trumps í Miami. Fundarmenn segja ýmislegt jákvætt hafa komið fram á fundinum en lítið bendir til þess að áþreifanlegum árangri hafi þar verið náð.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti heldur til Bretlands á morgun, mánudag, þar sem hann mun funda með Keir Starmer forsætisráðherra, Emmanuel Macron Frakklandsforseta og Friedrich Merz Þýskalandskanslara í Downing-stræti og upplýsa þá um stöðu yfirstandandi viðræðna milli bandarískra og úkraínskra erindreka um mögulegan friðarsáttmála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×