„Það virðist vera komin einhver hugmynd fram meðal ungmenna, að þú þurfir að vera vopnaður til að verja þig, sem er auðvitað stórhættuleg hugmynd,“ segir Margrét, sem var í Reykjavík síðdegis í dag.
Hún segir að sjö prósent ungmenna séu gríðarlegur fjöldi fólks, en segir að nánast enginn þeirra hafi sagst hafa notað vopnið.
Ekkert ungmenni eigi að vera með vopn á sér
Margrét segir að ungmenni eigi aldrei að vera með vopn á sér, hvortki í miðbænum né skólanum eða annars staðar.
Hún telur að hugmyndin um að maður þurfi að vera með vopn til að verja sig, hafi dreift sér svolítið á samfélagsmiðlum. Hún bendir á að þrátt fyrir að sjö prósent sé alltof hátt hlutfall, sé það alls ekki þannig að öll ungmenni séu með vopn.
Krakkar í viðkvæmri stöðu líklegri til að bera vopn
„Það er oftast þannig að bæði þessir krakkar sem eru að bera vopn og þau sem beita ofbeldi, að þetta eru krakkar í viðkvæmri stöðu. Ég skoðaði í þessum gögnum hvað myndi tengjast þessum vopnaburði, og ég sá til dæmis að þættir eins og slæmar heimilisaðstæður, að hafa orðið fyrir einelti í skólanum, hafa orðið fyrir ofbeldi í skólanum, hafa orðið fyrir ofbeldi heima hjá sér, það voru sterkir skýringarþættir,“ segir Margrét.
Hún segir að í sumar hafi komið út skýrsla frá greiningardeild ríkislögreglustjóra um ofbeldi meðal ungs fólsk. Þar var fjallað um aðgerðir til að sporna gegn þessu, og þar hafi meðal annars verið rætt um aukinn sýnileika lögreglunnar.
„En það er líka talað um að auka aðgengi krakka í viðkvæmri stöðu að frístunda- og félagsstarfi. Að passa að þau séu í frístundastarfi og hafi þar jákvæðar fyrirmyndir, svo auðvitað að virkja foreldraþátttöku í lífi barna sinna,“ segir hún.