Erlent

Vara við TikTok-æði eftir hand­töku tveggja ung­linga

Jón Þór Stefánsson skrifar
Athæfi drengjanna, að sparka í útidyrahurðir ókunnugs fólks, er víst vinsælt á samfélagsmiðlinum TikTok.
Athæfi drengjanna, að sparka í útidyrahurðir ókunnugs fólks, er víst vinsælt á samfélagsmiðlinum TikTok. Getty

Tveir táningar í Flórída-ríki Bandaríkjanna hafa verið handteknir eftir að lögregla bar kennsl á þá í myndefni úr öryggismyndavél þar sem að þeir sáust sparka í hurðar á húsum ókunnugra.

Fox News fjallar um málið, en í frétt miðilsins segir að athæfið sé vinsælt á samfélagsmiðlinum TikTok.

Táningarnir, sem eru fimmtán ára gamlir piltar, hafa verið handteknir grunaðir um nokkur innbrot. Þeir hafa viðurkennt að hafa sparkað í hurðar fjögurra húsa.

Tvær vikur í undanfara handtakanna hafði lögreglan í borginni Spring Hill fengið fjórar tilkynningar um óþekkta einstaklinga sem spörkuðu í útidyrahurðir heimila þeirra, og ollu skaða. Í einhverjum tilfellum hafi hurðir opnast upp á gátt.

Fox hefur eftir lögreglustjóranum á svæðinu að háttsemi drengjanna hafi verið sérstaklega hættuleg.

„Það eru ágætis líkur á að þessir ungur menn hefðu verið skotnir til bana af húsráðendum, sem eiga lagalegan rétt á að verja heimili sín. Ekki nóg með það, hefði það gerst þá hefði húsráðandinn þurft að lifa með því alla ævi að hann hefði drepið tvo táninga sem voru að taka þátt í einhverjum heimskulegum netleik,“ sagði hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×