Þetta segir í auglýsingu Jeffrey Ross Gunter, fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, sem birtist á YouTube-síðu hans í gær.
Líkt og kemur fram í kynningu Gunters sækist hann eftir sæti í öldungadeild Bandaríkjaþings. Það vill hann gera fyrir hönd Repúblikanaflokksins í Nevada-ríki.
Gunter var sendiherra hér á landi frá 2019 til janúar 2021. Á heimasíðu hans segir að sem sendiherra hafi hann styrkt samband Bandaríkjanna og Íslands svo um munar.
Þá er því haldið fram að í embætti hafi hann spornað gegn áhrifum Rússlands og Kína á norðurslóðum, sem sýni fram á skuldbindingu hans við hagsmuni Bandaríkjanna og alheimsöryggi.
DV fjallaði um kosningabaráttu Gunter í dag, en í frétt miðilsins kemur fram að hann hafi varið 3,3 milljónum Bandaríkjadala í kosningabaráttu sína, sem jafngildir rúmlega hálfum milljarði króna.
Staðarmiðillinn Nevada Current fjallar einnig um framboð Gunters. Í umfjöllun miðilsins segir að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og núverandi forsetaframbjóðandi, eigi enn eftir að lýsa yfir stuðningi við frambjóðanda í forvali Repúblikana fyrir öldungadeildina.
Annað er gefið til kynna á heimasíðu Gunters, en í færslu frá 24. mars segir að Trump hafi haldið fjáröflunarkvöld fyrir Gunter, og að búist sé við stuðningi frá forsetanum fyrrverandi.
Vísir fjallaði um annað kosningamyndband Gunters í ágúst í fyrra. Í því talaði hann einnig um baráttu sína við Kína og Rússland. Þá sagðist hann einngi hafa „barist við djúpríkið.“
Innra eftirlit utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna tók sendiherratíð Gunters fyrir skýrslu sem var gefin út árið 2021. Þar sagði að Harry Kamian, eftirmanni Gunters, hafi beðið mikið verk og að hann hafi þurft að gera mikið til að bæta starfsanda sendiráðsins.
Sjá einnig: Býður sig fram eftir „baráttu við djúpríkið“ á Íslandi
Í skýrslunni segir að Gunter hafi beitt ógnarstjórn. Hann hafi til að myndað hótað að lögsækja einstaklinga sem gáfu til kynna að þeir væru ósammála honum, eða ef þeir færu ekki eftir hans óskum.
Jafnframt kom fram að Kaiman hafi þurft að einbeita sér að því að endurbyggja samskipti Íslands og Bandaríkjanna, sem hafi hrakað mjög í sendiherratíð Gunters. Gunter er sagður hafa hvatt undirmenn sína til að eiga í sem minnstum samskiptum við íslenska tengiliði sína, og heimtað að öll samskipti við íslensk stjórnvöld færu í gegnum sig.
Sendiherratíð Gunters vakti nokkra athygli á meðan henni stóð. Til að mynda greindi CBS frá því að hann hafi viljað fá að bera skotvopn hér á landi og beðið um aukna öryggisgæslu.