Ásakanir Alexanders Smirnov hafa verið burðarstólpi í rannsókn Repúblikana á Joe Biden, forseta, á meintum embættisbrotum hans.
Í nýju minnisblaði, þar sem saksóknarar á vegum David Weiss, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sem hefur Hunter Biden til rannsóknar, fara fram á að Smirnov verði settur í gæsluvarðhald, kemur fram að Smirnov hafi sagt rússneska embættismenn á vegum leyniþjónustu hafa komið að því að dreifa sögusögnum um Hunter Biden.
Hunter Biden sat um tíma í stjórn úkraínska fyrirtækisins Burisma en Smirnov er sakaður um að hafa logið því í júní 2020 að yfirmenn í fyrirtækinu hefðu greitt bæði Hunter og Joe fimm milljónir dala á árunum 2015 og 2016. Smirnov hélt því fram að yfirmaður hefði sagt sér að þeir hefðu ráðið Hunter svo hann gæti varið þá með aðstoð föður síns.
Þetta segja saksóknarar á vegum David Weiss, sérstaks rannsakanda dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, að sé lygi. Smirnov er sagður hafa skáldað þessar ásakanir því honum hafi verið illa við Joe Biden.
Repúblikanar hafa varið mörgum mánuðum og jafnvel árum í að rannsaka Hunter og Joe Biden. Þeir hafa ítrekað haldið því fram að Joe Biden hafi hagnast á viðskiptum Hunters á erlendri grundu og tekið við mútum gegnum fjölskyldumeðlimi sína.
Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa þó ekki getað fært sannanir fyrir ásökunum þeirra og hafa þeir gert tilraunir til óheiðarlegrar framsetningar á meintum vísbendingum þeirra.
Weiss hefur ákært Hunter Biden fyrir skattsvik og fyrir að hafa logið á eyðublaðið vegna byssukaupa, þar sem hann hakaði við að hann væri ekki í neyslu, sem var ekki rétt.
Háttsettir Repúblikanar í báðum deildum Bandaríkjaþings hafa notað ásakanir Smirnovs á opinberum vettvangi og ítrekað lýst honum sem „trúverðugu vitni“.
Hitti Rússa í nóvember
Í áðurnefndu minnisblaði segja saksóknarar að Smirnov haldi því fram að hann hafi verið í samskiptum við aðila frá rússneskri leyniþjónustu á undanförnum mánuðum. Í nóvember hafi hann hitt rússneska embættismenn og hafi síðan þá dreift frekari lygum með því markmiði að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum.
Þá segja þeir hætt við því að hann reyni að flýja land, þar sem hann hafi sagt ósatt um eigin eigur. Hann sagðist eiga lítið sem engan pening en komið hefur í ljós að hann á um sex milljónir dala.
Smirnov heldur því einnig fram að hann hafi verið í samskiptum við aðila frá rússneskri leyniþjónustu á undanförnum mánuðum. Í nóvember hafi hann hitt rússneska embættismenn og hafi síðan þá dreift frekari lygum með því markmiði að hafa áhrif á kosningar í Bandaríkjunum.
Hefur hann sagt að starfsmenn rússneskar leyniþjónustu hafi vaktað klúbb á hóteli í Úkraínu og bað starfsmenn FBI um að rannsaka hvort Hunter Biden hefði verið í þessum klúbbi og hvort Rússar ættu upptökur af honum. Sagðist Smirnov hafa séð myndband af Hunter inn í klúbbnum.
Hunter Biden hefur hins vegar aldrei farið til Úkraínu.