Trump fékk rúman helming atkvæða eða 51,1 prósent og þar á eftir kemur Ron DeSantis ríkisstjóri Flórída með rúm tuttugu prósent. Skammt á eftir honum, með nítján prósent kemur síðan Nikki Haley, fyrrverandi sendiherra hjá Sameinuðu þjóðunum. Þessi úrslit festa Trump í sessi sem langlíklegastan til að hreppa útnefningu Repúblikana í komandi kosningum.
Sigur Trump er einnig markverður í ljósi þess að hann tapaði forkosningunum í Iowa árið 2016. Hann nýtur einnig stuðnings í öllu ríkinu því hann vann í níutíu og átta sýslum ríkisins og Nikki Haley hafði sigur í einni, en þó með aðeins eins atkvæðis mun.
Trump var á rólegu nótunum í sigurræðu sinni í nótt þar sem hann biðlaði til Bandaríkjamanna um að fylkja sér nú á bak við framboðið til að sigra Joe Biden sitjandi forseta.