Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að samninganefnd verkalýðsfélags leikara í sjónvarpi og útvarpi, sem í eru 160 þúsund leikarar, hafi lagt til að gripið verði til verkfallsaðgerða. Stjórn félagsins mun svo taka ákvörðun um það síðar í dag og eru allar líkur á að það verði samþykkt.
Samninganefnd félagsins hefur í rúman mánuð rætt við samtök kvikmynda-og sjónvarpsframleiðenda vestanhafs sem sjá um launasamninga fyrir hönd stærstu stúdíóanna og streymisveitna líkt og Amazon, Apple, Disney, NBCUniversal, Netflix, Paramount, Sony og Warner Bros. Discovery.
Haft er eftir Fran Drescher, forseta félags leikara, að félagið hafi ekki mætt raunverulegum samningsvilja af hálfu viðsemjenda sinna. Ekki sé annað í stöðunni en að grípa til verkfallsaðgerða. Áður hafa nokkrir stórleikarar líkt og Meryl Streep, Glenn Close, Jennifer Lawrence, Bob Odenkirk og Mark Ruffalo gefið frá sér yfirlýsingu þar sem þau segjast styðja verkfallsaðgerðir.
Handritshöfundar í Hollywood hófu sínar verkfallsaðgerðir þann 2. maí síðastliðinn. Ekki er útlit fyrir að þeim aðgerðum ljúki í bráð, að því er segir í umfjöllun Guardian. Mun verkfall leikara og handritshöfunda hafa víðtæk áhrif á efnahag Los Angeles borgar og víðar.
Í umfjöllun Guardian kemur fram að verkfallið muni þegar í stað hafa áhrif á markaðsstarf kvikmynda sem koma út í sumar. Þannig hafi heimsfrumsýningu Oppenheimer kvikmyndarinnar í leikstjórn Christopher Nolan sem fram fer í London í kvöld þegar verið flýtt um klukkustund. Þá gæti svo farið að Emmy verðlaunum verði frestað fram á vetur en þau eiga að fara fram í september.