Birgir Halldórsson, tuttugu og sjö ára, er einn af fjórum sakborningum í Stóra kókaínmálinu. Hann er grunaður um að eiga aðild að fyrirhuguðum innflutningi á hundrað kílóum af kókaíni sem til stóð að flytja til Íslands í viðardrumbum.
Rannsakendur höfðu borið vitni um að þau teldu aðkomu Birgis að málinu talsverða og að hann væri sá sem „sér um það sem vantar hér á landi, að það sé skaffað,“ líkt og það var orðað.
Anna Barbara Andradóttir, saksóknari í málinu sagði í sínum málflutningi að framburður Birgis Halldórssonar væri ótrúverðugur og gengi að mörgu leyti ekki upp. Hann hefði neitað að tjá sig um hluti hjá lögreglu, þverneitað að sími sem haldlagður var við handtöku væri hans en síðar greint frá aðild sinni og mikilvægi símans.
Ákæruvaldið taldi þó ljóst að þótt hlutverk Birgis væri veigamikið væri hann ekki efstur í keðjunni. Hún endaði ekki á Birgi heldur á huldumanninum „Nonna“.
„Ekki einusinni burðardýr“
Ólafur Örn Svansson, verjandi Birgis sagði umbjóðanda sinn hvorki skipuleggjanda innflutningsins, né hefði hann haft nokkurt ákvörðunarvald eða fjármagnað kaupin á efnunum. „Hann er ekki einusinni burðardýr“, sagði hann, og vísaði þar til þess að Birgir hafi ekki komið að vörslu efnanna á neinum tímapunkti.
Ólafur segir blasa við að Nonni sé sá sem hafi haft yfirsýn yfir málið og skipuleggi það að einhverju leiti, „þó fullyrða megi að hann sé ekki endilega á enda keðjunnar, eigandi efnanna,“ sagði Ólafur.
Það er óumdeilt að keðjan endar ekki hjá Birgi.
Sagði Pál fara með rangt mál
Þá sagði Ólafur að framburður Páls Jónssonar, sjötugs timbursala, væri rangur. Páll hafði bæði í skýrslutökum og hjá lögreglu greint frá því að það hafi verið Birgir sem fékk hann til verksins; að panta inn gáminn með viðardrumbunum sem efnin voru falin í.
Ólafur gaf í skyn að Páll vissi jafnvel hver Nonni væri og væri að verja hann með því að gera meira úr hlut Birgis og Jóhannesar.
Viðkvæmar myndir af sambýliskonu hans í símanum
Hvað varðar upptökukröfu mótmælti Ólafur fyrir hönd Birgis upptöku a iphone farsíma, apple fartölvu og vigt sem fannst í bíl hans við handtöku. Hann sagði tölvuna og símann sérstaklega mikilvæga.
Í símanum væru myndir af fyrsta æviskeiði barnsins hans auk mynda sem ættu ekki heima fyrir sjónum nokkurs annars manns. „Það er niðurlægjandi að vita að myndir sambýliskonu hans séu í höndum annarra,“ sagði Ólafur.
Saksóknari svaraði þessu í síðari málflutningi sínum og sagði að það væri „minnsta mál“ að fá tækin til baka, en Birgir hefði ekki viljað láta lögreglu fá lykilorð til að komast inn í símann og því hefði ekki verið hægt að rannsaka hann ennþá.

Varðandi refsingu sagði Ólafur að það yrði að hafa í huga hver væri raunverulegur skipuleggjandi innflutningsins og eigandi efnanna. Það væri ekki bara hægt að taka þá sem nást og færa þá upp keðjuna, „taka þann sem þú telur hafa brotið mest af sér og veita þeim þyngstu refsingu."
Líkt og verjendur hinna sakborninganna, gagnrýndi Ólafur haldlagningu hollensku lögreglunnar á fíkniefnunum og þá staðreynd að aðeins hafi verið tekin sýnu úr tíu prósent efnanna.

Aðalmeðferð málsins lauk í gær og má búast við dómsuppkvaðningu eftir um fjórar vikur.