Ár gervigreindarinnar
Gervigreindin ryður sér hratt til rúms. Við sjáum hana dúkka upp út um allt. Árið 2022 var að mörgu leyti árið sem gervigreindin fór að blómstra fyrir alvöru, svo mikið að orðið „gervigreind“ var reyndar kosið orð ársins á Spáni.
Og gervigreindarspjallforritið ChatGPT, sem dúkkaði upp undir lok síðasta árs, er nýjasta fyrirbrigðið sem allir eru að tala um núna og væntanlega næstu vikur og mánuði.
ChatGPT spjallforritið kom út 30. nóvember. Fjórum dögum síðar var meira en ein milljón manna byrjuð að nota það.
Skólayfirvöld hafa áhyggjur af heimanámi
Og nú rúmum mánuði síðar óttast kennarar og skólastjórnendur að þetta forrit geti hreinlega rústað heimalærdómi nemenda. Því forritið getur á nokkrum augnablikum svarað nánast hvaða spurningum sem er, það gæti skrifað ritgerð fyrir þig um Shakespeare, Laxness eða hvern sem er, á ljóshraða, og jafnvel haft hana í bundnu máli ef þú biður um það, já eða sem rapptexta. Og forritið leysir flókin algebrudæmi áður en þú getur blikkað augunum.
„Svona forrit geta verið mjög gagnleg við að efla sköpunargáfu nemenda,“ sagði Nuria Oliver, sérfræðingur í gervigreind í fréttum spænska ríkissjónvarpsins í gær.
Margir nemendur víðsvegar um heiminn hafa tekið forritinu fagnandi og segja einfaldlega að þetta sé tækni sem ekki verði hægt að stöðva, en svo eru þeir sem óttast það að vélar geti vitað svona mikið.
Forritið hefur verið bannað í mörgum skólum
Forritið er komið undir smásjána nú þegar hjá menntamálayfirvöldum víða um heim. Nemendum í New York og Los Angeles hefur verið bannað að nota það í tímum, það hefur sömuleiðis verið bannað í háskólum í Ástralíu og Árósaháskóli hefur bannað notkun þess í prófum. Menntamálaráðuneyti Spánar er með forritið til skoðunar áður en það ákveður hvernig verði brugðist við notkun þess.