Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um vöruskiptin við útlönd og rætt við Unu Jónsdóttur, forstöðumann hagfræðideildar Landsbankans.
„Já, við höfum séð verðmæti útflutnings vera að aukast. Þar spilar inn í veikara gengi og líka hærra afurðaverð. Verð á sjávarafurðum mælist mjög hátt og að sama skapi hefur álverð verið að hækka,“ segir Una.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar nam verðmæti útfluttra sjávarafurða 349 milljörðum króna í fyrra en verðmæti álútflutnings 403 milljörðum. Útflutningsverðmæti sjávarafurða jókst um 18 prósent milli ára og verðmæti álútflutnings um 48 prósent og fór álið upp fyrir sjávarútveginn í útflutningstekjum.
Tölur ársins um þjónustuviðskipti liggja ekki fyrir en þó segir Una ljóst að ferðaþjónustan sé stærsta útflutningsgreinin miðað við nýjar tölur um fjölda ferðamanna.
„Við fengum cirka 1,7 milljón ferðamanna hingað til lands í fyrra, sem er mjög gott. Þá sjáum við að ferðamenn eru að dvelja lengur og eru að eyða meiru, sem er býsna jákvætt.
Hagvöxturinn okkar er mjög næmur fyrir þeim fjölda ferðamanna, sem hingað koma. Þannig að það var mjög ánægjulegt að sjá það að þrátt fyrir stríð og verðbólgu, sem hefur ekki sést í áratugi, þá var áfram ferðavilji til staðar hjá fólki.“
En svo er það hin hliðin: Hvernig var farið með gjaldeyristekjurnar? Tölurnar sýna að landsmenn eyddu meiru í útlöndum en þeir öfluðu.

Þannig nam vöruútflutningur í fyrra 1.002 milljörðum króna en innflutningur 1.325 milljörðum, útflutningur jókst um 31 prósent en innflutningur um 33 prósent. Ójöfnuður á vöruskiptum nam 323 milljörðum en þá á eftir að taka inn þjónustuviðskiptin.
„Við sjáum fram á halla á vöru- og þjónustuviðskiptum, meðal annars sökum þess að ferðagleði okkar hefur mælst mikil og við höfum verið dugleg að fara til útlanda.
Svo er vöruinnflutningur bara mikill hér á landi. Við erum eyja. Við þurfum að flytja inn mjög mikið af þeim vörum sem við neytum dags daglega,“ segir Una Jónsdóttir, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: