Skoðun

Fleiri konur undir fer­tugt greinast með krabba­mein í brjósti en leg­hálsi

Eva Sjöfn Helgadóttir skrifar

Á síðustu tuttugu árum hafa 215 konur undir fertugt greinst með brjóstakrabbamein á sama tíma hafa 156 konur undir fertugt greinst með leghálskrabbamein.

Þannig að ellefu konur yngri en fertugar greinast með brjóstakrabbamein árlega að meðtali á sama tíma greinast átta konur með leghálskrabbamein. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra. 

Konur fá boð fertugar en er það of seint?

Frá 23 ára aldri fá konur á Íslandi boð í skimun fyrir leghálskrabbameini en íslenskar konur eru orðnar fertugar þegar að þær fá fyrst boð í skimun fyrir brjóstakrabbameini. Ef að þær panta sér tíma og mæta áður en þær verða fertugar þá hefur þeim hreinlega verið vísað í burtu. Dæmi eru til um það að konum hefur verið vísað í burtu vegna þess eins að vera ekki orðnar fertugar þrátt fyrir að vera 39 ára. Jafnvel þó að um ellefu konur á ári eru að greinast undir fertugt.

Aukið flækjustig minnkar líkur á að leyta sér aðstoðar

Það er ekki í lagi að konum sé vísað burt og þær fái ekki þjónustu. Þær þurfa að fara fyrst til heimilislæknis og svo kannski komast þær í skimun. Talað hefur verið um að íslenskar konur mæti allra verst á Norðulöndum í skimun og því ber okkur að tryggja það að konur mæti og ef þær mæta þá sé flækjustigið ekki of mikið. Við vitum að það er mun ólíklegra að einstaklingur mætir ef hann þarf að fara á marga staði. Það að konur undir 40 ára eigi fyrst að fara til heimilislæknis áður en þær fara á leitarstöð eykur flækjustig og eykur líkurnar á því að konur bíði til fertugs með það að fara.

Mikilvægt að allar konur frá 30 til 40 ára hafi greiðan aðgang að skimun

Á síðustu 20 árum hafa 823 konur látist vegna brjóstakrabbameins eða 41 kona á ári að meðaltali. Brjóstakrabbamein er það krabbamein sem að dregur hvað flestar konur á Íslandi til dauða á eftir lungnakrabbameini. Það er mjög mikilvægt að brugðist verði við þessum upplýsingum og að allar konur 30 ára og eldri eigi greiðan aðgang að því að koma í skimun og sé ekki vísað í burtu vegna þess að þær séu ekki búnar að fá tilvísun frá heimilislækni eða orðnar fertugar.

Höfundur er varaþingmaður Pírata.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×