Til stendur að taka stöðina af sporbaug sínum í janúar 2031 og þá mun hún falla hratt til jarðar og lenda á afviknum stað í Kyrrahafinu, sem kallast Point Nemo og hefur oft verið notaður til að beina geimrusli sem fellur til jarðar.
Staðurinn þykir hentugur til slíks þar sem rúmir 2.700 kílómetrar eru í næstu mannabyggð.
Að sögn NASA mun stofnunin reiða sig á einkageirann í meira mæli þegar kemur að geimferðum því ekki stendur til að setja aðra stöð á sporbaug um jörðu. Forsvarsmenn NASA hafa þó unnið með einkafyrirtækjum að þróun nýrra geimstöðva á braut um jörðu og má þar nefna geimferðamennskufyrirtækið Axiom, Blue Origin og Northrop Grumman.
Ax-1, @Axiom_Space's first private astronaut mission to the @Space_Station, is now scheduled to lift off from @NASAKennedy on Mar. 30.
— NASA (@NASA) February 2, 2022
The crew is set to spend eight days aboard the orbiting lab conducting science, education, and commercial activities: https://t.co/vfTdo17FIz pic.twitter.com/UVwM12gDk2
Forsvarsmenn þess opinberuðu nýverið að þeir ætluðu sér að koma upp tökuveri fyrir kvikmyndir og tónlist í geimnum. Það ætti að vera hluti af nýrri geimstöð sem verður í fyrstu tengd Alþjóðlegu geimstöðinni.
Geimstöðin, sem er á stærð við amerískan fótboltavöll fer umhverfis jörðina á níutíu mínútna fresti og allar götur frá árinu 2000 hefur einhver geimfari verið þar um borð. Upprunalega átti geimstöðin að vera í notkun í einungis fimmtán ár en forsvarsmenn NASA segjast vongóðir um að hún muni endast til 2030, þrátt fyrir viðvaranir embættismanna í Rússlandi um að geimstöðin væri úr sér gengin.
Í frétt Space.com er vitnað í skýrslu sem NASA birti í síðasta mánuði en þar segir að stofnunin gæti sparað allt að 1,8 milljarð dala með að hætta rekstri geimstöðvarinnar og þann pening væri hægt að nota í annað.
Því fer að koma að leiðarlokum hjá geimstöðinni en forsvarsmenn NASA tilkynntu í fyrra að breytingar hefðu verið gerðar á áherslum stofnunarinnar. Markmiðið væri að leggja meiri áherslur á lengri geimferðir og þróun tækni sem þarf til þeirra.
Má þar nefna mannaðar ferðir til tunglsins sem NASA vill hefja á þessum áratug. Þá vill NASA nota tunglið sem stökkpall lengra út í sólkerfið, eins og til Mars. Rannsóknir sýna að finna má ís í gígum á pólum tunglsins og þann ís má bæði nota til að framleiða eldsneyti fyrir geimför og halda við byggð manna á tunglinu.
Fyrsta geimskoti Artemis-áætlarinnar, sem gengur út á að koma mönnum til tunglsins hefur verið frestað til mars. Það geimskot kallast Artemis-1 og mun bera ómannaða Orion-geimfar á braut um tunglið. Í Artemis-2 verða geimfarar sendir á sporbraut um tunglið en Artemis-3 á að ganga út á að lenda mönnum aftur á tunglinu.
Ný geimstöð þegar á sporbraut
Smíði nýrrar geimstöðvar á braut um jörðu hófst í fyrra en hún er smíðuð af Kínverjum. Þegar þetta er skrifað eru þrír geimfarar um borð í Tiangong geimstöðinni. Þeim var skotið á loft í október og eiga þau að vera í geimstöðinni í sex mánuði og vinna að áframhaldandi smíði hennar.
Sjá einnig: Kínverjar spýta í lófana í geimnum
Kínverjar og Rússar hafa einnig gert samkomulag um að vinna í sameiningu að því að koma upp rannsóknarstöð á yfirborði tunglsins.