Erlent

Leit að flug­vélinni horfnu engan árangur borið

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sermitsiaq-fjall gnæfir yfir grænlensku höfuðborginni Nuuk.
Sermitsiaq-fjall gnæfir yfir grænlensku höfuðborginni Nuuk. Vísir/Óskar Páll Friðriksson

Umfangsmikilli leit að flugvél sem hvarf skammt utan Nuuk á Grænlandi hefur aftur verið frestað en hún hefur enn engan árangur borið. Leitin mun halda áfram á morgun, mánudag. Einn var um borð.

Um er að ræða eins hreyfils flugvél af gerðinni Cessna sem lagði af stað frá Kanada með flugmann um borð. Hún hvarf af ratsjám yfir Sermitsiaq-eyju seinni partinn í gær, laugardag, og leit var hafið skömmu síðar. Þessu greinir miðillinn Sermitsiaq frá en hann heitir í höfuðið á umræddu fjalli.

Í dag hafa viðbragðsaðilar leitað að flugvélinni í þyrlum og flugvélum auk þess að ganga um strönd eyjunnar.

Slæm veðurskilyrði gerði leitarmönnum erfitt fyrir en flugvélin er talin hafa mögulega brotlent á Sermitsiaq-fjalli. Fjallið rís upp úr Góðrarvonarfirði og gnæfir yfir höfuðborgina Nuuk. Það er einnig á skjaldarmerki borgarinnar. 

Síðasta skráða lofthæð flugvélarinnar nam 1143 metrum en Sermitsiaq-fjall er 1210 metrar á hæð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×