Það vakti mikla athygli þegar stóllinn fór á sölu hjá Góða hirðinum og var settur á hálfa milljón króna. Stóllinn er dönsk hönnunarvara frá 6. áratug síðustu aldar.
Fyrrverandi eigandi hans gaf sig svo fram við Góða hirðinn. Sá hafði misst konu sína úr krabbameini og vildi að stóllinn færi á uppboð þar sem ágóðinn af sölunni rynni til Ljóssins, stuðningsmiðstöðvar fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þess.
Það var svo eigandi Epal hönnunarvöruverslunar sem keypti stólinn fyrir 165 þúsund krónur og ákvað að styrkja Ljósið enn meira, um samtals 330 þúsund krónur.
Stóll sem gefur gott í hjartað
Svo var að ákveða hvað ætti að gera við sjálfan stólinn.
„Og ég fékk fullt af svona áhugaverðum ábendingum en margir sögðu mér finnst Ljósið eiga að fá hann. Tónninn á að enda þar. Svo að við tókum þá ákvörðun,“ segir Eyjólfur Pálsson, eigandi Epal.

Stóllinn var afhentur Ljósinu í dag.
„Þetta er bara bæði gott í hjartað, yndislegt að fá þennan styrk, sagan öll og allt þetta góða fólk sem kemur að þessu þannig við erum bara himinlifandi,“ segir Heiða Eiríksdóttir hjá Ljósinu.
En stóllinn fékk sannkallaða yfirhalningu áður en hann var afhentur. Margir hneyksluðust nefnilega á verðinu á stólnum, eins illa farinn og hann var.
En Eyjólfur fékk bólstrunarnema og húsgagnasmið með sér í lið til að lagfæra stólinn sem er orðinn glæsilegri en nokkru sinni fyrr.

„Og hvað gerðirðu við stólinn, hvað er búið að gera við hann? Slípa hann upp og vinna allt gamla efnið af honum, bæði fitu og annað og bera svo á hann aftur,“ segir Ólafur Thorarensen húsgagnasmiður.
Dansk-íslenskur stóll
Og þegar smiðurinn hafði lokið sér af tók bólstrunarneminn við.
„Ég bara vil gjarnan gefa vinnu mína þar sem hægt er og mér þetta fannst mér alveg tilvalið, “ segir Ásdís Birgisdóttir, nemi í húsgagnabólstrun.
„Mér finnst þetta ákaflega skemmtilegt og ekki síst að fást við íslenskt hráefni og að stóllinn sé að fara á svona góðan stað,“ heldur hún áfram.
Þannig bólstraði Ásdís hann með íslensku ullarefni, sem Kormákur og Skjöldur nota í tvítjakka sína.
Þetta er orðinn svona dansk-íslenskur stóll er það ekki?
„Jú, jú, og það er nú gott í tilefni kvöldsins þegar Danmörk og Ísland spila handbolta í kvöld,“ segir Eyjólfur.
Fjallað var um málið í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld: