Trump-liðar hafa lengi verið reiðir í garð Baldwins vegna gagnrýni hans í garð Trumps og fyrir það hvernig hann lék forsetann í Saturday Night Live.
Skömmu eftir dauða Hutchins var myllumerkið #AlecForPrison farið að sjást á Twitter, samkvæmt AP fréttaveitunni.
Enn liggur ekki að fullu fyrir hvað gerðist á tökustað myndarinnar Rust. Joel Souza, leikstjóri myndarinnar, segir Baldwin hafa verið að æfa atriði þar sem hann dregur byssu á loft og miðar henni að myndavélinni. Souza og Hutchins stóðu við myndavélina og þegar skot hljóp úr byssunni særðust þau bæði . Hutchins lést á sjúkrahúsi.
Lögregluþjónar segjast hafa fundið skot á tökustaðnum en hafa ekki tekið fram hvort þau hafi verið hefðbundin eða púðurskot. Eins og bent er á í frétt New York Times eru hefðbundin skot yfirleitt bönnuð á tökustöðum kvikmynda og þátta.
Fram hefur komið í dómsskjölum aðstoðarleikstjórinn Dave Halls rétti Baldwin byssuna og lýsti því yfir að hún væri tóm. Hannah Hutierrez-Reed, skotvopnasérfræðingur kvikmyndarinnar, hafði þar áður meðhöndlað byssurnar.
Souza segir að þau bæði eigi að ganga úr skugga um að byssur séu ekki hlaðnar á tökustað. Halls hafði áður verið rekinn úr framleiðsluteymi myndar eftir að skot hljóp óvænt úr byssu.
Sjá einnig: Hafði áður verið rekinn úr tökuliði vegna byssuskots á setti
Lögreglan stefnir á að halda blaðamannafund um rannsókn þeirra á dauða Hutchins á morgun.
Virðist hlakka í Trump-liðum
Íhaldsmaðurinn J.D. Vance, sem er í framboði fyrir annað af öldungadeildarþingsætum Ohio, kallaði eftir því að Trump yrði hleypt aftur á Twitter. Það væri mikil þörf fyrir tíst forsetans fyrrverandi um Alec Baldwin.
Trump yngri hefur þó farið manna fremstur í gríninu og gagnrýninni á Baldwin. Hann hefur til að mynda birt margar færslur um Baldwin á Instagram síðu sinni. Meðal annars birti hann til að mynda færslu á Instagram þar sem staðhæfir að ef hægri sinnaður maður hefði valdið dauða annars á svipaðan hátt væri leikarinn mjög hávær í gagnrýni sinni.
„Fjandinn hirði hann,“ skrifaði Trump yngri við mynd af föður hans gera byssu með fingrunum með textanum: „Donald Trump að æfa grínatriði þar sem hann leikur Alec Baldwin“.
Þá byrjaði hann nýverið að selja boli og peysur sem á stendur; „Byssur drepa ekki fólk Alec Baldwin drepur fólk“ á 28 dali.

Þingkonan Lauren Boebert birti mynd af gömlu tísti frá Baldwin þar sem hann velti vöngum yfir því að gera boli með textanum: Hendur mínar eru á lofti. Gerðu það ekki skjóta mig.“
Boebert „taggaði“ Baldwin og spurði hvort þessir bolir væru enn til. Sagðist hún vera að spyrja fyrir kvikmyndaframleiðanda.
Á formlegri Twittersíðu sinni gagnrýndi hún svo Baldwin fyrir að sýna nægilega nærgætni með skotvopn og fyrir það að vilja herða löggjöf um skotvopn í Bandaríkjunum.
.@AlecBaldwin are these still available?
— Lauren Boebert (@laurenboebert) October 22, 2021
Asking for a movie producer pic.twitter.com/AeE5VHLhqN