Jeff Lowe er umdeildur maður, svo ekki sé sterkar til orða tekið. Hann hefur stundað viðskipti með framandi dýr og haft þau til sýnis í dýragarði sínum í Thackerville í Oklahoma. Hann tók við rekstri dýragarðsins á eftir hinum alræmda Joe Exotic eftir að sá síðarnefndi var dæmdur í fangelsi.
Lowe staðfesti við miðilinn TMZ í dag að um 40 til 50 alríkislögreglumenn hefðu ráðist inn í dýragarðinn hans snemma morguns með leitarheimild. Honum var að eigin sögn skipað að halda sig inni í húsi sínu á meðan rassían fór fram, ellegar yrði hann handtekinn.
Samkvæmt umfjöllun bandaríska miðilsins Fox um málið er þetta önnur rassían sem gerð er vegna Lowe í þessum mánuði.
Í tilkynningu yfirvalda segir að alls hafi 68 dýr verið tekin af Lowe þar á meðal ljón, tígrisdýr, jagúar og hinn afar forvitnilegi blendingur ljóns og tígrisdýrs, sem kallast liger á ensku. Að sögn Lowes voru lögreglumennirnir sérstaklega einbeittir í að leita að tígrishvolpum en hann kveðst ekki hafa átt neina slíka.
Ástæða þess að dýrin voru tekin af Lowe var vanræksla hans á þeim. Í yfirlýsingu lögreglunnar segir að Lowe hafi ekki staðist þær kröfur sem settar eru í landinu af dýravelferðaryfirvöldum um reglulega heimsókn dýralæknis á svæðið, góða næringu fyrir dýrin og nægilega stór svæði fyrir þau þar sem þau eru varin fyrir vondu veðri.