Um er að ræða þingmenn sem hafa staðið við bakið á Trump í viðleitni hans til að snúa við úrslitum forsetakosninganna í fyrra. Forsetinn og margir þingmannanna hafa ranglega haldið því fram að umfangsmikið svindl hafi kostað Trump sigur í kosningunum.
Stjórnmálamenn vestanhafs hafa gefið út fjórðungsuppgjör vegna fjáröflunar þeirra og er ljóst að stuðningsmenn forsetans stóðu öðrum framar og fengu töluvert meira fé í sjóði sína en aðrir.
Samkvæmt greiningu blaðamanna CNN eru kjósendur og stuðningsmenn Trumps að verðlauna þá Repúblikana sem hafa stutt forsetann fyrrverandi.
Þingmaðurinn Matt Gaetz safnaði 1,8 milljónum dala á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra safnaði hann 192 þúsund dölum. Gaetz er til rannsóknar hjá Alríkislögreglu Bandaríkjanna fyrir að hafa greitt ungum konum fyrir kynlíf og mögulegu mansali.
Sjá einnig: Vinur Gaetz sagður vinna með yfirvöldum í rannsókn á mansali
Þingkonan umdeilda Marjorie Taylor Greene safnaði 3,2 milljónum, sem þykir gífurlega mikið og þá sérstaklega vegna þess að hún er nýbyrjuð á þingi.
Öldungadeildarþingmaðurinn Josh Hawley safnaði um þremur milljónum og öldungadeildarþingmaðurinn Ted Cruz safnaði 3,6. Báðir eru líklegir til að bjóða sig fram til embættis forseta í næstu kosningum árið 2024 og báðir hafa sömuleiðis staðið þétt við bakið á Trump.
Í frétt Politico segir að öldungadeildarþingmaðurinn Ben Sasse, sem hefur gagnrýnt Trump fyrir ummæli hans og áróður um kosningarnar hafi einungis safnað 130 þúsund dölum. Svipaða sögu er að segja af öðrum Repúblikönum sem greiddu ekki atkvæði með því að reyna að snúa niðurstöðum forsetakosninganna.