Skoðun

Þríeyki stjórnmálalegs óstöðugleika

Gunnar Smári Egilsson skrifar

Þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur var mynduð lýsti forystufólk hennar því yfir að þetta væri ríkisstjórn stöðugleika, stæði fyrir efnahagslegan og félagslegan stöðugleika og ekki síst pólitískan stöðugleika.

Er eitthvað í þessu hjá þeim Sigurði Inga, Bjarna og Katrínu?

Byrjum á pólitískum stöðugleika.

Íslandsmeistari í klofningi

Sigurður Ingi Jóhannsson bauð sig fram með formann Framsóknarflokksins haustið 2016 og klauf þar með flokkinn. Miðflokkurinn varð til ári síðar og fékk fleiri atkvæði en Framsóknarflokkurinn í kosningunum 2017. Slíkt hefur aldrei áður gerst í íslenskri stjórnmálasögu, að klofningsframboð fái meiri fylgi en móðurflokkurinn. Sigurður Ingi er að þessu leyti Íslandsmeistari í klofningi flokka.

Þegar Albert Guðmundsson klauf Sjálfstæðisflokkinn með Borgaraflokknum, Vilmundur Gylfason Alþýðuflokkinn með Bandalagi jafnaðarmanna og Jóhanna Sigurðardóttir Alþýðuflokkinn með Þjóðvaka fengu þessir flokkar mun minna fylgi en móðurflokkarnir. Kosningar staðfestu að minnihluti fylgifólks flokkana höfðu fylgt flóttafólkinu.

Þegar Sigurður Ingi varð valdur að klofningi Framsóknar með formannsframboði sínu og ekki síður því að hafa ekki byggt upp frið um niðurstöðu formannskjörsins mánuðina á eftir, fylgdu fleiri atkvæði flóttafólkinu en þeirri forystu sem eftir sat.

Það er hægt að fullyrða að í öllum löndum sem byggt hafa upp virkt lýðræðiskerfi hefði Sigurður Ingi sagt af sér sem formaður Framsóknarflokksins eftir kosningarnar 2017. Þess í stað leiddi hann flokk í sárum inn í ríkisstjórn í von um að geta fundið honum tilgang við valdastólanna.

Er þetta merki um pólitískan stöðugleika, að kljúfa flokk og fagna því að minni ágreiningur sé innan þess flokksbrots sem eftir er?

Maðurinn sem helmingaði Sjálfstæðisflokkinn

Bjarni Benediktsson tók við sem formaður Sjálfstæðisflokksins rétt fyrir kosningarnar 2009, þegar flokkurinn fékk sína verstu útreið í sögunni. Fylgi við flokkinn óx hratt í stjórnarandstöðu við einkar óvinsæla ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, fór upp undir 40% í könnunum vorið 2012, en fylgið fjaraði síðan hratt þegar nær dró kosningunum 2013. Bjarni hefur leitt Sjálfstæðisflokkinn í fjórum kosningum og í þremur þeirra farið undir fylgi flokksins eftir klofning Albert Guðmundssonar 1987 og í eitt skipti aðeins lítillega yfir þá sögulegu niðurlægingu. Bjarni hefur því fest í sessi fylgishrun Sjálfstæðisflokksins eftir bankaránin miklu.

Og flokkurinn hefur klofnað í formannstíð Bjarna. Evrópusinnar úr flokknum stofnuðu Viðreisn 2016, upplifðu sig svikin af formanni sínum og forystu, sem hafði haldið Evrópudyrunum opnum en lokaði þeim skyndilega í stjórnarsamstarf við Framsóknarflokk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þótt Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hafni nú samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn þá komu menn úr Sjálfstæðisflokknum að stofnun Flokks fólksins og fyrrum frammámenn í flokknum voru í framboði fyrir hann. Kannski má rekja afstöðu Ingu til reynslunnar af samstarfi við þessa Sjálfstæðisflokksmenn fremur en hugmyndalegs ágreinings. En hvort sem er, þá er ljóst að Flokkur fólksins sækir líka inn í gamalt kjörfylgi Sjálfstæðisflokksins. Eftir stofnun hans var Sjálfstæðisflokkur klofinn í þrennt.

Og Miðflokkur umrædds Sigmundar Davíðs klauf ekki aðeins Framsókn heldur sótti líka fylgi til annars óánægjuarms innan Sjálfstæðisflokksins, íhaldsfólks í einkamálum í bland við fólk með landsbyggðaráherslur. Það má lesa það af leiðurum og Reykjavíkurbréfum Davíðs Oddssonar í Mogga að hann, og sá hópur sem nú myndar pólitískan söfnuð hans, á margt frekar sameiginlegt með Miðflokki en Sjálfstæðisflokki. Eftir stofnun Miðflokksins var Sjálfstæðisflokkurinn því klofinn í fernt.

Örugg staða Bjarna innan þess Sjálfstæðisflokks sem eftir er byggir á þessu, að fólk sem gæti veitt honum aðhald úr ýmsum áttum er farið. Flokksstarf í Sjálfstæðisflokknum er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var. Flokkurinn er ekki lengur fjöldahreyfing heldur lítið annað en þröng valdaklíka kringum formanninn.

Eins og Sigurður Ingi er Bjarni kóngurinn yfir því sem eftir situr þegar hann hefur fælt mikið af fólki og atkvæðum frá flokknum. Það má vera að einhver vilji kalla það stöðugleika, en það er stöðugleiki byggður á getuleysi til sátta, ófriði og sundrung.

Grimmasta forystan

Katrín Jakobsdóttir hefur tilheyrt forystu Vinstri grænna síðan hún var valin sem varaformaður 2003 og hefur leitt flokkinn frá 2013. Þetta tímabil hefur einkennst af flótta þingmanna úr flokknum, meiri flótta en nokkur dæmi eru um í íslenskri stjórnmálasögu.

Svo virðist sem forysta Vg haldi fram kröfu um skilyrðislausa hollustu við þá línu sem hún markar og þoli enga andstöðu, varla hófstillt andmæli. Þetta má merkja af ummælum flóttafólksins sem lýsir reynslu sinni af andófi við forystuna innan Vg sem mikilli sálrænni raun; að það hafi orðið fyrir grófu félagslegu ofbeldi; einelti, útilokun, þöggun og einagrun.

Atgervisflóttinn frá Vg hefur verið mikill. Líklega mætti búa til ágætt stjórnmálaafl úr því fólki sem taldi sér ekki líft innan flokksins eftir að það lýsti skoðunum sínum á stefnu forystunnar. Á kjörtímabilinu eftir Hrunið yfirgáfu flokkinn Ásmundur Einar Daðason, Atli Gíslason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Jón Bjarnason og Lilja Mósesdóttir. Mögulega mætti telja Ögmund Jónasson með í þessum hópi, en hann hefur í umræðu liðinna missera andmælt stefnu forystunnar harðlega. Og á síðasta kjörtímabili yfirgáfu svo þingmennirnir Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir Vg. Af fólki sem setið hefur á þingi sem varamenn fyrir Vg og hafa lýst yfir að það sé hætt í flokknum má nefna þessi: Drífa Snædal, Eydís Blöndal, Hildur Knútsdóttir, Margrét Pétursdóttir og Andie Sophia Fontaine.

Þetta er glæsilegur hópur. Það er engri rýrð kastað á núverandi þingflokk Vg þótt sagt sé að þetta flóttafólk sé pólitískt miklu meira spennandi hópur, með víðari skírskotun og öflugri hugmyndadeigla.

Kveðjurnar til flóttafólksins frá Vg hafa verið að þetta fólk sé vandamálið. Eða að svona sé þetta í vinstrinu, þar sem tilfinningar eru sterkar í kringum heitar hugsjónir. Auðvitað getur það ekki verið. Það er augljóst að forysta Vg er vandamálið. Það eru engin dæmi um viðlíka flótta frá nokkru stjórnmálaafli í íslenskri sögu. Og það er fráleitt rangnefni að kalla þetta pólitískan stöðugleika.

Hrörnun lýðræðis er ekki stöðugleiki

Vg er í dag líkt og Framsókn og Sjálfstæðisflokkur, friðsamt og öruggt heimili forystu án grasrótar. Friðurinn byggir á flótta allra sem voru með andóf eða beygði sig ekki undir vilja forystunnar. Samstaðan í þessum flokkum byggir á að ekki eru leyfð nein andmæli. Það mætti kalla það kirkjugarðsfrið, þar sem öll andspyrna hefur verið jörðuð.

Ríkisstjórnarflokkar hafa haft forystu um að stórauka framlög úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka. Í dag eru yfir þrír milljarðar á kjörtímabili. Þetta er í reynd styrkur til forystu sem getur ekki lengur treyst á félagsgjöld eða framlög almennra félaga og sem ekki kann eða getur nýtt sér vilja grasrótar til sjálfboðaliðsstarfa. Forystan nýtir þannig fé úr ríkissjóði til að halda lífi án grasrótar, að halda áfram flokksstarfi þar sem flokksstarfið er ekkert nema forystan.

Og þessi einagrunarstaða forystunnar hefur markað allt starf ríkisstjórnarinnar. Ráðherrarnir koma á kynningarfundi innan úr bakherbergjum og upplýsa þjóðinni um ákvarðanir sínar sem ekki hafa fengið neina umræðu í samfélaginu, hvorki á þingi, innan almannasamtaka, í fjölmiðlum né meðal almennings almennt. Þjóðinni er ekki kynntur vandinn og valkostirnir heldur aðeins niðurstaða ráðherranna. Þetta er verklag fólks sem telur sig hafa slæma reynslu af lýðræði, telur að lýðræðisleg umræða tefji mál og eyðileggi.

Það má vera að oddvitar ríkisstjórnanarinnar upplifi stöðugleika í bakherberginu með já-fólkinu, sem eftir er í flokkum þeirra. En slíkur friður byggir ekki upp pólitískan stöðugleika í samfélaginu. Þvert á móti grefur sá aflokaði friður undan pólitískum stöðugleika.

K-kreppan eykur félagslegan óstöðugleika

En hvað með félagslegan stöðugleika? Er ríkisstjórnin að ná því markmiði?

Hættan við kórónakreppuna er að hún verði það sem kallað er K-kreppa. Einkenni slíkrar kreppu er að hluti hópsins, hin best settu, finna alls ekki fyrir samdrætti heldur batnar staða þess þvert á móti. Þau halda tekjum sínum og eignarverð hækkar og þar með verðmæti eigna hinna betur settu og mest þó auður hinna auðugu. Þau sem standa best geta nýtt sér afslátt af virðisaukaskatti til framkvæmda og vaxtalækkun til kaupa á eignum, þau kaupa sér heitan pott, skipta út eldhúsinnréttingu, byggja sólpall, kaupa auka íbúð til að leigja og bæta enn efnahagslega stöðu sína.

Hinn armurinn á K-inu vísar niður. Það er fólkið sem missir vinnuna og þarf að þola tekjumissi. Láglaunafólk sem missir ekki bara aðal vinnuna, heldur líka vinnu númer tvö og þrjú sem það þurfti á að halda til að ráða við húsnæðiskostnað og framfærslu. Tekjumissir leigjenda, sem áður rétt náðu að greiða leiguna, fara nú með alla innkomuna til leigusalans og síðan í biðraðir hjá hjálparstofnunum til að sækja mat fyrir fjölskylduna. Innflytjendur með veikt félagslegt bakland og þar með minni bjargir til að mæta skyndilegu og miklu tekjufalli, eru útsett fyrir verstu afleiðingum samdráttarins. Sama á við um ungt fólk sem skuldar mikið; námslán, húsnæðislán, bílalán; og er því viðkvæmt fyrir tekjufalli. Rannsóknir sýna að þetta eru hóparnir auk öryrkja og fátæks eftirlaunafólks sem tilheyra neðri arminum á K-inu, fólkið sem er að taka á sig allar byrðarnar af kreppunni. Og að innan þeirra hópa sem koma verst út eru konur fjölmennari.

Efnahagsaðgerðir sem ýkja ójöfnuð

Allar kreppur auka ójöfnuð, en kórónakreppan hefur sýnt sig vera sérlega skæð að þessu leyti. Þess vegna hafa ráðleggingar allra alþjóðlegra stofnana snúist um að draga úr ójöfnuði, ekki bara út frá réttlætissjónarmiði heldur líka vegna þess að aukning ójöfnuðar dregur úr getu samfélagsins til að reisa sig við. Ójöfnuður er eitur sem grefur undan samfélögum, veikir þau og étur upp traust og getu til uppbyggingar.

Það sést hins vegar á hagtölum frá Íslandi að ríkisstjórn Katrínar, Bjarna og Sigurðar Inga hefur ekki hlustað á þessar ráðleggingar og varnaðarorð. Hér hefur húsnæðis- og hlutabréfaverð hækkað meira en annars staðar. Það er klár merki þess að aðgerðir stjórnvalda hafa flutt fé til hinna betur settu. Á sama tíma hefur aukning atvinnuleysis verið meiri hér en annars staðar í okkar heimshluta. Ríkisstjórninni hefur mistekist að búa til störf, hefur það reyndar sem stefnu að gera það ekki. Markmið hennar er að geyma hin atvinnulausu á atvinnuleysisskrá þar til einkafyrirtæki þurfa á þeim að halda.

Og það er hægt að benda á fleiri dæmi. Rannsóknir sýna að fjórðungur launafólks á erfitt með að ná endum saman, fimmtungur getur ekki mætt óvæntum útgjöldum. Biðraðir eftir matargjöfum lengjast. Andleg líðan hinna verst settu versnar, ekki bara láglaunafólks, aldraðra, öryrkja og atvinnulausra heldur líka námsfólks. Þetta eru skýrar vísbendingar um að K-ið okkar er hvassara en annars staðar. Armur hinna betur settu rís hærra á meðan armur hinna lakar settu fellur skarpar.

Fókus ríkisstjórnarinnar hefur snúist um að vernda eignarverð með stóraukinni útlánagetu bankakerfisins. Það flytur fé til þeirra sem betur standa. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki búið til störf fyrir hin atvinnulausu. Ráðherrarnir trúa að það sé ekki ríkisvaldsins að búa til störf heldur aðeins einkafyrirtækja.

Rót þessarar trúar liggur í nýfrjálshyggjunni, sem heldur því fram að ríkið geti aldrei orðið lausnin (vegna þess að ríkið sé vandamálið) og að hin ríku séu drifkraftur samfélagsins, þau einu sem geta innleitt nýjungar, skapað störf og verðmæti. Þessi delluhugmynd hefur magnað upp ójöfnuð á liðunum áratugum og þar með félagslegan óstöðugleika. Ríkisstjórn sem starfar í anda þessara kenninga ýtir undir félagslegan óstöðugleika.

Stefnt að skilvirkni en engri seiglu

Þá er það efnahagslegur stöðugleiki. Tókst ríkisstjórninni að innleiða hann?

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við efnahagssamdrætti hefur ýkt ójöfnuð og þar með efnahagslegan óstöðugleika. Og með stuðningi sínum við kvótakerfið, og önnur kerfi óréttlætis, eykur ríkisstjórnin enn ójöfnuð og óstöðugleika.

Kvótakerfið hefur valdið meiri óstöðugleika á Íslandi en nokkuð annað fyrirbrigði í Íslandssögunni, mögulega að Svarta dauða slepptum. Kvótakerfið hefur kippt fótunum undan atvinnulífi og efnahagslegum styrk margra sjávarbyggða, svipt fólk atvinnu og lífsviðurværi og fellt eignir þeirra í verði. Þetta hefur verið látið viðgangast í þeirri trú að skilvirkni, samþjöppun og arðsemi fyrirtækja væru æðstu boðorð efnahagsstjórnar, ekki velferð og öryggi borgaranna.

Húsnæðismarkaðurinn er rekinn af sömu grimmd. Þar er áherslan á arðsemi verktaka- og leigufyrirtækja og sífella hækkun leigu- og söluverðs íbúðarhúsnæðis, þótt slíkt svipti þau efnahagslegum stöðugleika sem eru á leigumarkaði og þau sem hafa ekki ráð á að kaupa húsnæði. Hin lakar settu upplifa húsnæðismarkaðinn sem óútreiknanlegt helvíti, engan stöðugleika.

Sambærileg áhersla á samþjöppun og skilvirkni hefur leitt til þess að sífellt færri og stærri fyrirtæki drottna yfir sínum hluta markaðarins þar sem þau innleiða fákeppni og einokun. Áhersla á arðsemi fyrirtækjanna, hversu mikið fé hægt er að draga upp úr rekstrinum og færa eigendum, veldur því að fyrirtækin verða veikburða og einsýn og skortir styrk og seiglu til að komast í gegnum erfiða tíma. Nema þá með ríkulegri fjárhagsaðstoð úr almannasjóðum. Þetta sást vel í aðgerðum ríkisstjórnarinnar í fyrra þar sem fyrirtæki sem árin á undan höfðu fært eigendum sínum miklar arðgreiðslur voru komin í þrot aðeins nokkrar vikur inn í efnahagssamdráttinn.

Nýfrjálshyggjan holar atvinnulífið að innan

Núgildandi atvinnustefna, með alla áherslu á hagsmuni auðugustu fjármagnseigendurna og allra stærstu eigendur allra stærstu fyrirtækjanna, mun halda áfram að hola atvinnulífið að innan. Stóru fyrirtækin munu í leit að aukinni skilvirkni og hagkvæmni stærðarinnar áfram kaupa upp smærri fyrirtæki, fjölskyldufyrirtæki og önnur smáfyrirtæki og millistór, sem búa yfir seiglu til að mæta erfiðleikum. Eina markmiðið er að flytja ávinninginn af samruna fyrirtækjanna til eigenda hlutabréfanna. Á eftir stendur atvinnulífið veikar, brothættara og fábreytilegra og ólíklegra til að skapa nýjungar eða fleiri störf.

Þetta er ekki séríslenskt vandamál heldur vandi fyrirtækjareksturs alls staðar í okkar heimshluta, afleiðing þess að nýfrjálshyggjan hefur áratugum saman farið höndum sínum um atvinnulífið. Erlendis er fólk farið að viðurkenna vandann, hann er ekki aðeins ræddur af gagnrýnendum kerfisins heldur meðal stjórnenda og eigenda stærstu fyrirtækjanna. Jafnvel fyrir þeim er vandinn augljós. En vandinn virðist hulinn íslensku ráðafólki.

Horfa á vitlausa mæla

Þótt Ísland hafi að sumu leyti verið vel undir áföllin búið og efnahagssamdrátturinn hafi orðið minni en fyrstu spár sögðu til um, er ljóst að íslenskt efnahagskerfi stendur nú veikt. Samdrátturinn afhjúpaði hversu veik einkafyrirtækin eru, þau hafa ekki þrek til að mæta andbyr í fáeinar vikur, eru ólíkleg til að fjárfesta eða nota samdráttinn til að undirbúa sókn eða byggja upp ný störf.

Samdrátturinn afhjúpaði líka viljaleysi stjórnvalda til nýta afl ríkisins til að skapa störf og nota með einhverjum hætti þá stöðu að hátt í 20 þúsund manns eru í raun komin á laun hjá ríkinu í gegnum atvinnuleysisbætur. Í stað þess að nýta þessa stöðu til að gera stórátak í orkuskiptum, eflingu innlendrar matvælaframleiðslu, skógræktar eða íslenskukennslu innflytjenda, var opinberum fjármunum og tíma hinna atvinnulausu varið í bið. Bið eftir að einkafyrirtæki kalli hin atvinnulausu aftur til starfa.

Og þótt ríkisstjórnin hafi boðað miklar opinberar framkvæmdir þá hefur orðið minna úr þeim en boðað var. Markmið þeirra flestra er líka að hlutafélaga- og einkavæða opinbera innviði. Þetta á við um framkvæmdir og fjáröflun borgarlínu, en einnig um ráðgerðar stórframkvæmdir í samgöngum. Reynsla þjóðanna hefur sýnt að innleiðing einkafjármögnunar inn í innviði og opinberan rekstur er kostnaðarsamari fyrir samfélagið og veikir því efnahagslífið. Þau einu sem græða er fólkið sem fær rentu af framkvæmdunum.

Með því að halda áfram á braut nýfrjálshyggjunnar er ríkisstjórnin því í raun að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ráðherrarnir stara á vitlausa mæla og draga af þeim rangar ályktanir. Hækkun eignaverðs er ekki jákvæð teikn og heldur ekki aukin arðsemi fyrirtækja þegar styrkur þeirra, seigla og þrek minnkar. Vaxandi eignaójöfnuður sendir frá sér varúðarflaut sem stjórnvöld heyra ekki. Athyglin er á afkomu fjármagns- og fyrirtækjaeigenda og eignarhald þeirra á fyrirtækjunum en ekki á hinum atvinnulausu, þótt þar sé að finna aflið og getuna til að byggja upp öflugra samfélag.

Allir vita að ójöfnuður er eitur

Það er því óskiljanlegt hvaðan sú hugmynd kemur að núverandi ríkisstjórn sé ríkisstjórn pólitísks, félagslegs og efnahagslegs stöðugleika. Þvert á móti grefur þessi ríkisstjórn undan lýðræðinu og þar með pólitískum stöðugleika. Hún ýkir ójöfnuðaráhrif kreppunnar og grefur þar með undan félagslegum stöðugleika. Og í stað þess að viðurkenna eyðileggingaráhrif nýfrjálshyggjunnar lætur hún þessa hugmyndastefnu vera leiðarljós allra aðgerðir hennar, sem óhjákvæmilega mun grafa undan efnahagslegum stöðugleika.

Eini stöðugleikinn sem þessi ríkisstjórn tryggir er áframhaldandi ógnarvöld auðvaldsins, hinna allra ríkustu; auðugustu fjármagnseigendanna og allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna. En ógnarvöld þessa hóps, hinna fáu ríku, er mesta ógnin við stöðugleika samfélagsins. Um það eru ekki bara sósíalistar og aðrir gagnrýnendur kapítalismans sammála heldur er það líka viðurkennt af Alþjóðabankanum, Alþjóða gjaldeyrissjóðnum, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, klúbbi hinna auðugu í Davos, hringborði forstjóra stærstu fyrirtækja Bandaríkjanna, málgögnum auðvaldsins á borð við The Economist og Financial Times og allra málsmetandi hagfræðinga, félagsfræðinga og fræðasamfélagsins alls, að ójöfnuður er álíka ógn við samfélag manna og loftslagsváin.

Ríkisstjórn sem ekki vinnur gegn ójöfnuði dag og nótt, sérstaklega frammi fyrir efnahagssamdrætti sem mun magna upp ójöfnuð, getur aldrei talist stjórn stöðugleika. Það er hreint hlægilegt að halda slíku fram.

Höfundur er félagi í Sósíalistaflokknum.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×